Leikskóli Mánaland

Leikskólinn er tveggja deilda leikskóli í Vík í Mýrdal og er fyrir börn á aldrinum 1-5 ára. Leikskólinn er staðsettur að Mánabraut 3-5  í sama húsi og Víkurskóli ásamt íþróttamiðstöð hreppsins. Milli 20-30 börn stunda nám við leikskólann á hverjum tíma. Leikskólinn opnar kl. 07:45 á morgnana og honum er lokað kl. 16:15.

Mánaland er þátttakandi í verkefni á vegum landlæknis, Heilsueflandi leikskóli sem og þróunarverkefninu Málþroski og læsi - færni til framtíðar. Lögð er áhersla á holla og góða næringu auk góðrar almennrar lýðheilsu. Einnig er unnið með ART og  vináttuverkefnið Blæ á báðum deildum leikskólans. 

Leikskólinn Mánaland starfar samkvæmt lögum og reglugerðum um leikskóla, aðalnámskrá leikskóla og stefnu sveitarfélagsins. Unnið er að uppeldi og menntun barna. Fylgst er með velferð þeirra og hlúð að þeim andlega og líkamlega svo þau fái notið sín sem einstaklingar. 

Sjá reglur um heimAgreiðslu vegna barna á biðlista eftir leikskólaplássi

Reglur um heimagreiðslur í Mýrdalshreppi 

1. gr.
Mýrdalshreppur samþykkir að greiða sérstakar heimagreiðslur til forráðamanna barna þar til barn fær boð um leikskólavist. Einstæðir foreldrar eiga rétt á heimagreiðslu þegar barn nær 9 mánaða aldri en foreldrar í hjúskap eða sambúð þegar barn nær 12 mánaða aldri. 
2. gr.
Barn og forráðamenn þess skulu hafa lögheimili og búsetu í Mýrdalshreppi.
3. gr.
Sækja skal um heimagreiðslur á umsóknareyðublaði sem er að finna á vefsíðu sveitarfélagsins www.vik.is eða á hreppsskrifstofunni og skal skilað þangað. Umsókn er aldrei afturvirk. 
4. gr.
Heimagreiðslur eru veittar frá næstu mánaðarmótum eftir að umsókn er móttekin ef barnið hefur náð aldri til úthlutunar og það hefur ekki fengið pláss á leiksóla Mýrdalshrepps.
5. gr.
Heimagreiðslur eru kr. 90.000 á mánuði með hverju barni. Greiðslur þessar skulu endurskoðaðar árlega. Heimagreiðslur fást að hámarki greiddar í 11 mánuði á ári.
6. gr.
Heimagreiðslur eru greiddar eftir á og miðast við að greitt sé út fyrir miðjan næsta mánuð.
7. gr.
Heimagreiðslur falla niður ef foreldrar fá boð um leikskólavistun í leikskóla Mýrdalshrepps, hvort sem leikskólavist er þegin eða henni hafnað.
8. gr.
Umsóknir um heimagreiðslur skal endurnýja árlega.
9. gr.
Foreldrar sem skulda eldri gjöld hjá Mýrdalshreppi fá ekki greiddar út samþykktar heimagreiðslur fyrr en skuldin er að fullu greidd.
10. gr.
Verði um ofgreiðslur að ræða á heimagreiðslum áskilur Mýrdalshreppur sér rétt til að krefjast endurgreiðslu. Sé ofgreiðsla á grundvelli rangra upplýsinga, eða umsækjandi ekki tilkynnt um breytingar á högum sínum, sem hafa áhrif á rétt til heimagreiðslna er heimilt að leggja dráttarvexti á upphæð endurkröfunnar. 
Reglur þessar voru samþykktar í sveitarstjórn Mýrdalshrepps 21. september 2017 og taka gildi frá þeim degi.
Leikskólastjóri:Nichole Leigh Mosty
Sími: 487 12 41
Heimasíða: http://manaland.is