Hjóla- og gönguleiðir

Gönguleiðir í Mýrdalshreppi

HATTA 

Vegalengd: 10 km
Hækkun: 504 m
Göngutími: 4-5 klst fram og til baka
Upphafsstaður: Vík í Mýrdal – Bílastæði við Víkurkirkju. Leiðin er stikuð.
Áhugaverðir staðir: Heiðarvatn
 

Leiðarlýsing: Gengið um Bratthól upp á Víkurheiði og á Höttu (504 m). Haldið er sömu leið til baka með brúnum Víkurheiðar, í stað þess að fara niður hjá Bratthól er haldið áfram í austur og komið niður við Uxafótalæk. Genginn er gamall þjóðvegur með Víkurhömrum og í gegnum Víkurþorp að upphafsstað.

Hatta (504 m) er hæsta fjall í byggð í Mýrdalnum og þaðan er mikið útsýni til allra átta. Hatta er á Víkurheiði, norðaustur af þorpinu. Fyrir Kötlugosið 1660 féll sjór að Víkurhömrum og lá þá alfara-leið til sveitanna austan Sands um Arnarstakksheiði og síðar um Heiðardal og Vatnsársund.

Heiðarvatn er um 2 ferkm að stærð og allt að 30 m djúpt. Veiði er í vatninu: sjóbleikja, sjóbirtingur, urriði og lax. Heiðará fellur í vatnið frá norðvestanverðu og steypist niður af heiðarbrún-inni í allháum fossi, Hrossafossi (eða Heiðarfossi). Vatnsá rennur úr Heiðarvatni um Vatnsársund, fyrst til norðurs en síðan til austurs og loks suðurs og í Kerlingardalsá.

 

Heiðarvatn, mynd: Þ.N.Kjartansson

Grafargil 

Vegalengd: 5,5 km
Hækkun: óveruleg
Göngutíma: 2-3 klst fram og til baka
Upphafsstaður: Vík í Mýrdal – Bílastæði við Víkurkirkju. Leiðin er stikuð
Áhugaverðir staðir: Syngjandi, Rafvæðing Víkurþorps, Völvuleið
 

Leiðarlýsing: Gengið frá Víkurkirkju að hlíðum Víkurheiðar, inn með hlíðunum neðan við Bratthól, framhjá Norður-Víkurgerði upp á Bæjarhrygg. Með hryggnum norðanverðum, framhjá gamalli sundlaug að Grafargili. Gilinu er fylgt að austanverðu upp á Veðurháls. Farið á vaði (eða stiklað á steinum) yfir Víkurá og gengið vestur fyrir Grafarhól að norðan. Þar er farið framhjá hestaleiði og svo að Grafargili. Gengið eftir gilinu framhjá brúarstæði sauðabrúar sem þar var og sauðabóli fram á gamla þjóðveginn um Grafargil. Yfir brúna og eftir veginum upp á brún og síðan eftir Víkurgili og Syngjanda að upphafstað.

Syngjandi er lítil laut fyrir neðan túnið í Norður-Vík, ekki langt frá gömlu rafstöðinni í Víkurgili. Sagt er að þar hafi verið bænhús eða hálfkirkja fyrr á öldum og sér ennþá móta lítillega fyrir rústunum ef vel er að gáð. Löngum var það trú manna, og var sú sögn á lofti, að þar voru álftar oft á ferð og álftakirkja þar sem þeir áttu að hafa komið saman. Á Jónsmessunótt dönsuðu þeir á flötinni og á jólakvöld gengu þeir í skrúðgöngu til messu í kirkju.

Völvuleið: Völva er norrænt orð yfir spákonu sem er einnig talin vera göldrótt þ.e. býr yfir yfirnáttúrulegum krafti. Á túni nokkru við bæinn Norður-Víkur telja margir að leiði völvu sé að finna og hrófli menn við því muni óhöpp fylgja í kjölfarið.
Fyrir mörgum öldum kom maður er Loddi hét til Víkur. Hann settist það að ásamt börnum sínum Grákollu og Grákolla og konu sinni, en hún var talin vera völva. Þau voru öll jarðsett við bæinn Norður-Vík og má rekja mörg örnefni á svæðinu til þeirra s.s. Grákolluflötur, Grákolluleiði, Loddastaðir og Völvuleiði, en þar má sjá stóra dys á túni við bæinn sem hefur sömu lögun og leiði. Völvan hefur löngum verið talin hvíla hér, og ber dysin nafn eftir því.
Til eru sögur um hræðilega atburði sem hafa átt sér stað eftir að leiði völvunnar hefur verið raskað og því er sagt að leiði hennar sé álagablettur. Ein slík saga segir frá því þegar menn sáu bæinn standa í ljósum logum, en þegar betur var að gáð reyndist það tálsýn eða ímyndun. Einnig þykja mörg óhöpp með skepnum og húsdýr hafa átt sér stað við bæinn þegar óvarlega er gengið um leiðið. Drápust um helmingur kindahjarðar einhverju sinni án útskýringa og sömuleiðis hrapaði eitt sinn uppáhalds hesturinn á bænum í Víkurá og drapst – þessir atburðir hafa menn tengt við álagablettinn.

Álfakirkja á Syngjanda, teikningur: J. Laczkowski
Rafvæðin í Víkurþorpinu: Vík var einn af fyrstu þéttbýlisstöðum landsins til að stíga það mikla framfaraskref að setja upp rafstöð og leiða rafmagn í hvert hús.
Upphaf rafvæðingarinnar má rekja til ábendingar frá Halldóri Guðmundssyni (1874-1924) frá Eyjarhólum í Mýrdal. Hann benti þorpsbúum á að hægt væri að virkja Víkurá og raflýsa þannig þorpið. Halldór var einn allra fyrsti Íslendingurinn til að læra rafmagnsfræði.
Þessi ábending varð til þess að hreppsnefndin, undir forystu Halldórs Jónssonar kaupmanns í Suður-Vík, tekur málið upp og gerir samning við Halldór Guðmundsson. Samningurinn er dagsettur 3. maí 1913 og hljóða til hann upp á að ,,að reisa og fullgera rafmagnsstöð í Vík í Mýrdal,, - ,,og stöðin skal hafa kraft minnst 12 hestafla, svo framleidd verði 250-300 16 kerta ljós,,.
Nokkru fyrr, þann 14. Apríl 1913 hafði hreppsnefndin gert samning við tuttugu og sex Víkurbúa um að hreppsnefndin skuldbindi sig ,,til að koma upp raflýsingarstöð, er framleitt geti að minnsta kosti 250 ljós með 16 kerta styrkleika til lýsingar í kauptúninu og Víkurbæjum.,,
Halldór hófst handa við byggingu stöðvarinnar fljótt eftir undirritun samningsins og gekk verkið, með dyggri að stöð heimamanna, svo vel að Víkurbúar héldu jólin 1913 við glampandi birtu farljósanna. Sagt er að fyrstu ljósin í Vík voru orsök þess að togarinn Lord Carrington strandaði. Sá endaði í Kerlingardalsfjöru (26. Nóvember 1913) og að sögn skipstjórans var ástæðan sú að skipverjar töldu ljósið koma frá togurum sem lægju í vari vegna veðurs.
Lýsing á byggingu þessa mannsvirkis er stuttu máli eftirfarandi. Víkuráin var stífluð með 2-3ja metra hárri stíflu úr grjóti og torfi neðst í Víkurgili. Vatni var síðan leitt í 25-30 m löngum tréstokki að stöðvarhúsinu og fékkst með því, u.þ.b. fjögurra metra fallhæð. Vatnstúrbínan var af Francis gerð frá Sörumsend í Noregi en rafallinn frá Siemens, 1800 snún/mín. Hann framleiddi 8,4 kW af 220 V rakstraum.
Fyrsti stöðvarstjórinn var Eiríkur Ormsson. Byggði hann sér íbúðarhús þar sem rafstöðin var í kjallaranum og íbúð á hæðinni fyrir ofan. Sá hann um stöðina til ársins 1916 en flutti alfarið í burt frá Vík árið 1918. Síðasti stöðvarstjórinn var Guðni Bjarnason.
Rafstöðin í Vík var rekin sem farsælt og gott fyrirtæki til ársins 1959 með ýmsum breytingum og stækkunum, þegar Rafmagnsveitur ríkisins kaupa hana með afsali, 12. Dags október sama ár. Þar með lauk þessum stórmerkilega þætti í sögu Víkurþorps. Gott dæmi um framsýni, dugnað og samtakamátt íbúa þessa unga og ört stækkandi þorps á fyrstu árum síðustu aldar.

Rafstöðin gamla í Vík í Mýrda. Mynd: S. Kjartansson

Reynisfjall

Vegalengd: 6 km
Hækkun: 250 m
Göngutími: 2-4 klst fram og til baka
Upphafsstaður: Vík í Mýrdal – Hjá Kötlusetri (Brydebú) í Vík.
Áhugaverðir staðir: herbyggingLóransstöð, Reynisdrangar, Reynisfjara, stuðlabergsmyndir, Hálsanefshellir, við klett fjallsins er heimkynni lundans.

 

Leiðarlýsing: Gengið um Reynisfjallsveg upp á Reynisfjall. Þegar komið er upp er leiðin stikuð. Gengið er með austurbrún fjallsins fram á bergið fyrir ofan Reynisdrangar (eða veginn að gömlu Lóranstöðinni), síðan eftir vesturbrún til móts við Presthús. Þaðan austur yfir að veginn upp á fjallið og síðan niður sömu leið. Ganga um norðurhluta fjallsins eftir austurbrúnum þess inn fyrir Innra Grafarhöfuð og síðan til baka með vesturbrúnum lengir gönguna um allt að 4 km.

Reynisfjall stendur við þorpið í Vík. Fjall er um 340 m hátt móbergsfjall sem myndast hefur við eldgos undir jökli á kuldaskeið Ísaldar. Upp á fjallið liggur brattur og erfiður vegur sem er fær fjórhjóladrifsbílum upp frá Vík. Þessi vegur var lagður í seinni heimsstyrjöldinni fyrir breska og bandaríska herinn og var í mörg ár rekin þar lóranstöð.  Þar er hægt að komast í seilingarfjarlægð frá lundanum og sést þar ofaná Reynisdrangana. Mjög mikið fuglalíf er í fjallinu og stunda heimamenn lundaveiði í nokkrum mæli. Sunnan í fjallinu að vestanverðu er óvenju fagurformaðar stuðlabergsmyndanir og hellisskútar sem vert er að skoða.

Reynisfjall. Mynd: Þ.N. Kjartansson
Lóransstöðin: Í seinni heimstyrjöldinni var Ísland hernumið af Bretum og síðar Bandaríkjamönnum. Sumarið 1940 komu breskir hermenn til Víkur og dvöldu þeir hér í u.þ.b. eftir eitt ár. Hermennitnit byggðu braggahverfi á svokölluðum Bökum og enn standa rústir af bröggunum þar.
Gamall götuslóði lá upp á Reynisfjall þar sem þorpsbúar sóttu kirkju á Reyni hinumegin við fjallið, allt til ársins 1934. Bretar nýttu sér þennan götuslóða en lögðu síðan veg í hans stað. Innfæddir fengu þá vinnu m.a. við að teyma hesta upp fjallið. Þar var Lóranstöðin síðan byggð. Þessi svonefnda ,,Bretavinna,, hafið jákvæð áhrif á efnahagsþróun svæðisins. Í búum tók að fjölga vegna aukins atvinnulífs.
Fyrsta Lóranstöðin var byggð á sandinum fyrir sunnan þorpið í Vík. Sú dró illa, svo Bretarnir enduðu með að flytja hana upp á Hraunhól. Þar settu hermennirnir upp radar til að fylgjast með loftumferð. Einnig var þar sett upp bækistöð sem sá um samskipti við höfuðstöðvarnar í Reykjavík.
Eftir að Bretarnir fóru, fluttu Bandaríkjamenn bækistöð sína frá Hraunhól og syðst á Reynisfjall. Nýtt kerfi var sett upp og var það tekið í notkun árið 1943. Það var svonefnt Loran A kerfið sem byggir á því að þrjár lóranstöðvar vinna saman að því að búa til miðunargeisla. Þannig var hægt að staðsetja skip og flugvélar með áður óþekktir nákvæmni. Staðsetningarpunkturinn var þá þar sem geislarnir þrír skárust. Hinar tvær stöðvarnar voru staðsettar erlendis. Móðurstöðin var á Skúvanes, staðsett á Suðurey í Færeyjum og þriðja stöðin var á eyunni Lewis og staður heitir Mangersta sem tilheyrir Suðureyjum Skotlands. Langdrægni kerfisins gat verið 750-1400 mílur eftir aðstæðum. Kerfið skipaði mikilvægan sess í framvindu stríðsins því Þjóðverjar skildu ekki hvernig mótherjarnir gátu ratað svo vel. Fimm slík kerfi voru sett upp við norðanvert Atlantshaf.
Lóranstöðin var starfrækt áfram eftir stríðslok. Bandarískir starfsmenn störfuðu þar til ársins 1947 en eftir það tók Alþjóða Póstmálastofnunin við rekstri stöðvarinnar. Þegar mest var höfðu um 15-20 manns atvinnu þar. Meðal starfsmanna voru m.a. stöðvarstjóri, vélagæslumaður, loftskeytamaður og tímavörður. Stöðugildunum fækkaði með árunum og rekstur stöðvarinnar lagðist alveg niður um áramótin 1977-78.

 

Lóransstöðin. Ljósm: óþ

Reynisdrangar eru allt að 66 metra háir drangar sem rísa úr sjó fyrir framan undir Reynisfjalli og sjást þeir mjög vel frá Vík. Drangarnir eru myndaðir í eldsumbrotum. Stærsti drangurinn er hinn þrítyppi Langsamur sem minnir á þrímastrað skip. Áfastur honum er Landdrangur og sá þriðji er ýmist nefndur Háidrangur eða Skessudrangur. Um dranga þessa er sögð sú þjóðsaga, að þar hafi tröll tvö verið að draga þrísiglt skip að landi, en dögun náði þeim áður en þau náðu fjallinu, og bæði þau og skipið þá orðið að steini. Staðurinn vel þess virði að gefa gestum og gangandi tækifæri á að skoða hrikalega náttúrufegurðina og fjölskrúðugt fuglalíf.

 Reynisdrangar. Mynd: Þ.N. Kjartansson

Reynishverfi Vestan Reynisfjalls liggur vegur suður með öllu fjallinu og ef hann er ekinn til enda þá er komið að syðsta bæ landsins Görðum. Rétt vestan við bæinn Garðar er jörðin Hellur en þar bjó síra Jón Steingrímsson eldklerkur ásamt bróður sínum, Þorsteini í tvo vetur. Bjuggu þeir í hellisskúta einum inní móbergsklöpp þeirri er þar stendur og má þar ennþá finna ummerki um búsetu í áðurnefndum helli. Síra Jón var einnig prestur á Felli í Mýrdal áður en hann hóf prestskap á Prestbakka á Síðu. Ef farið er niður í fjöru má sjá mjög fallegar stuðlabergsmyndanir syðst í Reynisfalli og er þar að finna forkunnarfagran helli er nefnist Hálsanefshellir. Í Reynishverfinu stendur Reyniskirkja en í gamla kirkjugarðinum hvílir meðal annars Sveinn Pálsson læknir (1762-1840). Hann var einn kunnasti náttúrufræðingur Íslands fram til þess tíma.

 

Reynishverfi. Mynd: Þ.N. Kjartansson

Hjörleifshöfði

Vegalengd: 4 km
Hækkun: 200 m
Göngutími: 1-2 klst fram og til baka
Upphafsstaður: Við miðjan sunnanverðan Hjörleifshöfða á áfangastað Kötlu Jarðvangs. Ekið er frá þjóðvegi (1) um merktan veg niður að Hjörleifshöfða. Gönguleiðin er stikuð.
Áhugaverðir staðar: Hjörleifshaug, hellir Gýgjagjá

 

Leiðarlýsing: Mælt er með að ganga þessa leið réttsælis. Gengið upp úr Bæjarstaðagilinu sunnan megin. Þegar upp er komið er sveigt til suðurs. Fyrst er gengið um svæði sem heitir Hurðarbök en sunnar um svokallaða Dalabotna, með klettaborg sem heitir Sauðafell á vinstri hönd. Ekki er ólíklegt að þetta sé leiðin sem Ingólfur Arnarson og menn hans báru Hjörleif til greftrunar uppi á hæsta hnúk Höfðans. Eftir að hafa notið útsýnisins og skoðað grafreitinn og Hjörleifshaug er haldið til vesturs, niður Hjörleifshraun, eftir þýfðri grastorfu og þaðan sveigt til norðurs fram á brún svokallaðrar Bæjarbrekku. Þar blasir við gamla túnið ásamt bæjarrústunum tveim sem þar eru ásamt svörtu sandhafinu sunnan Höfðans. Áfram er haldið niður að rústunum og síðan niður Klifið og inn með rótum Sláttubrekku inn í Bæjarstað þar sem ferðin hófst.

Hjörleifshöfði, klettahöfði úr móbergi á suðvestanverðum Mýrdalssandi 221m hár. Hefur áður náð í sjó fram, en nú nær sandurinn langt suður fyrir höfðann (2-3 km til sjávar), sem heitir Kötlutangi. Sá myndaðist úr stóru gosi árið 1918 þar sem magn setefnis barst með stóru jökulhlaupi frá Kötlu. Í Landnámu segir svo að Hjörleifur hafi numið land í Hjörleifshöfða en þrælar hans drápu hann og húskarla hans og flúðu síðan út í Vestmannaeyjar. Þar var hann veginn og er haugur hans talinn vera efst á höfðanum. Lengi eftir að Hjörleifur var veginn “þorði þar enginn maður land að nema sökum landvætta” segir í Landnámu. Þessi orðrómur hefur alla tíð síðan fylgt Hjörleifshöfða, þar hafa menn orðið varir við ýmislegt sem illa gengur að skýra og margir verða fyrir sterkum áhrifum frá staðnum eða einhverju afli sem dregur menn þangað aftur og aftur. Hjörleifshöfði þótti mjög góð bújörð, rík af hlunnindum og með góðar en brattar slægjur. Lengst af var bæjarstæðið vestanundir Höfðanum en tók af í Kötluhlaupi árið 1721. Þá var bæjarstæðið fært uppá sunnanverðan höfðann og var þar þangað til Höfðinn fór í eyði er síðasti ábúandinn brá búi 1936. Meðal ábúenda í Hjörleifshöfðavar Markús Loftsson, sérmenntaður fræðimaður og vísindamaður. Bjó hann í fornum og þröngum húsakynnum og vildi ekki hrófla við neinu. Eftir lát hans byggði Hallgrímur Bjarnason nýtt íbúðarhús í Höfðanum og raskaði þannig gömlu hýbýlunum, þvert á vilja Markúsar og eftir það fara sögur af því að ekki hafi verið búandi í Höfðanum sökum draugagangs og annars konar hindurvitna. Segja menn að raskað hafi verið því jafnvægi sem Markús vildi við hafa við hin duldu öfl. Markús lét jarðsetja sig efst uppá Höfðanum við hlið Hjörleifshaugs og hvílir hann þar ásamt konu sinni, Áslaugu Skæringsdóttur, ónefndu barni þeirra og bróður Markúsar, Sigurði Loftssyni. Höfðanum fylgdu mikil hlunnindi, reki og fuglatekja. Skipbrotsmannaskýli var sunnan undir Hjörleifshöfða. Fyrir sunnan höfða er hellir - Gýgjagjá sem varð nefndur Yoda Cave eftir ferðamönnum.

Hjörleifshöfði. Mynd: Þ.N. Kjartansson 

Hafursey

Vegalengd: 6 km
Hækkun: 400 m
Göngutími: 2-3 km fram og til baka
Upphafsstaður: Sunnan Klofgils. Ekið frá þjóðvegi (1) um vegarslóð að Hafursey
Áhugaverðir staðir: Kötlujökull, Mýrdalssandur
 

Leiðarlýsing: Gengið upp eftir Klofgili langleiðina þangað sem hæst ber í gilinu, þar er gengið skáhallt upp hlíðina lítið eitt til suðurs meðfram klettabríkum upp á öxl sem þar er. Þaðan er gengið nálægt austurbrún að landmælingavörðu sem er á hæsta toppnum. Héðan er óviðjafnanlegt útsýni til allra átta. Frá vörðunni er tilvalið að ganga lítið eitt til norðurs og síðan vestur á brún Skálarfjalls og til baka um Skálina neðanverða austur að Klofgili.

Hafursey er móbergsfjall á ofanverðum Mýrdalssandi, að nokkru klofið í tvennt um svonefnt Klofgil. Vestan gilsins er Skálarfjall (582 m) en á austurhlutanum ber hæst Kistufell (525 m). Sagt er að Kötluhlaup 1660 hafi verið svo kröftugt er það skall á Hafursey að skvettur frá því hafi hlaupið fram úr Klofgili. Nokkuð austan við Klofgil er Réttargil. Vestanvert við það eru tveir hellar, Sel og Stúka, en þar höfðu ábúendur Hjörleifshöfða selstöðu. Þar var einnig fyrrum áningarstaður ferðamanna um Mýrdalssand ofanverðan og kom sér oft vel eins og séra Jón Steingrímsson lýsir í ævisögu sinni (Ævisaga, 1973, bls. 138). – Suðurhlíðar Hafurseyjar voru skógi vaxnar fram á 19. öld og sóttur þangað viður til eldsneytis. Skógarhöggsmenn tepptust þar t.d. í vikutíma í Kötlugosi 1755. Höfðust þeir fyrst við í Stúkunni, en fluttu sig Selið sem lá nokkru hærra. Árið 2007 voru hellarnir grafnir út en þeir höfðu smám saman verið að fyllast af gólfskán og komu þá í ljós margar gamlar áletranir á bergveggjunum, m.a. ártalið 1755 þegar mennirnir tepptust þar í Kötlugosinu.

 

 Hafursey. Mynd: Þ. N. Kjartansson

Mýrdalssandur nær yfir um 700 ferkílómetra lands. Hreppamörk Mýrdalshrepps og Skaftárhrepps liggja frá Kötlujökli um háöldu sandsins nokkru austan við Hafursey og í mynni Blautukvíslar við sjó. Talið er að land hér hafi verið algróið og skógi vaxið í upphafi Íslandsbyggðar en eldgos og hamfara-hlaup úr Kötlu hafa skilið eftir svartar sandauðnir. Talið er að Katla hafi gosið nær 20 sinnum frá því land byggðist og hafa liðið 13–90 ár milli gosa en síðasta Kötlugos var 1918. Þjóðvegurinn lá áður um norðurhlíðar Selfjalls og sunnan undir Hafursey en liggur nú neðarlega á sandinum skammt ofan Hjörleifshöfða. Stór svæði umhverfis veginn hafa verið grædd upp með melgresi og lúpínu á síðustu áratugum og hefur þannig tekist að hefta að verulegu leyti sandfok sem oft gat verið slæmur farar-tálmi. Gróðrinum á sandinum hefur fylgt ýmiss konar gróska af öðru tagi, aukið fuglalíf o. fl.

 Mýrdalssandur. Mynd: Þ.N. Kjartansson

Höfðabrekkuheiðar

Vegalengd: 11 km
Hækkun: 200 m
Göngutími: 4-5 klst fram og til baka
Upphafsstaður: Þakgil á Höfðabrekkuafrétti. Fært er á öllum bílum inn í Þakgil. Ekið er af þjóðvegi (1) um Kerlingardalsveg (214) og áfram inn heiðarnar (gamla þjóðveginn).
Áhugaverðir staðir: Stróhellir, Þakgil

 

Leiðarlýsing: Gengið er frá Þakgili með veginum að Léreftshöfði. Þegar komið er upp á Léreftshöfuð er farið af veginum í efstu beygju og gengið til suðurs með brúnum. Gengið er fram Seldalsbrýr yfir Þuragil að Össuheiði. Fyrir framan Össuheiði er farið yfir Súgandagil sem er framhald af Illagili en eins og nafnið gefur til kynna getur það verið erfitt yfirferðar. Eftir Súgandagil verður brúnum fylgt áfram fram á Núpa, þar er gengið að vegi og honum fylgt þar til að komið er að skilti sem á stendur Reynisbrekka. Frá Reynisbrekku er veginum fylgt til Víkur. Hægt er þó að sameina þessa göngu hjá Núpum við gönguleið númer 11 – Höfðabrekkuháls og halda svo áfram til Víkur. Það lengir leiðina um 8 km.

Þakgil og Höfðabrekkuafréttur. Gamli vegurinn um Kerlingardals- og Höfðabrekkuheiði endar neðan Léreftshöfuðs en þaðan liggur nú bílfær vegur í Þakgil, syðst í Höfðabrekkuafrétti. Afrétturinn er norðan Afréttisár og eru vesturmörk hans um Raufargil. Talið er að litlu hafi munað að flóðið í Kötlu-gosinu 1918 næði vestur í Afréttisá og yfir í Vatnsársund. Gömul ferðamannaleið er um Vatnsársund, Hagadal og með Afréttisá austur á Mýrdalssand norðan Hafurseyjar, en talin hafa verið fáfarin. – Neðst í Miðfelli er Miðfellshellir en þar höfðu gangnamenn náttstað áður. Í hellinum eru fjölmörg ártöl klöppuð í bergið, þau elstu frá því á 18. öld. – Í Þakgili er nú rekin ferðamannaþjónusta og býður það upp á einstaka möguleika til að njóta útivistar í friðsælu en jafnframt stórbotnu umhverfi. Margir kostir bjóðast hér til skemmtilegra gönguferða, jafnt styttri sem lengri, m.a. inn í Huldufjöll sem svo eru nefnd, en þau eru umlukt jökli. Nokkru vestar á Ferðafélag Mýrdælinga skála, sunnan undir móbergshrygg sem heitir Barð. Húsið var áður barnaskóli við Deildará, byggt 1904, en var flutt inn á afrétt og um skeið notað sem gangnamannakofi. Það hefur nú verið stækkað nokkuð og endurbætt.

 

 Kirkjugarður í Höfðabrekku. Mynd: Þ. N. Kjartansson
Höfðabrekkuháls 
Vegalengd: 8 km
Hækkun: 210 m
Göngutími: 2-3 klst fram og til baka
Upphafsstaður: Ekið er frá þjóðvegi (1) um Kerlingardalsveg (214). Beygt er að Hótel Kötlu – Höfðabrekku.
Áhugaverðir staðar: Skiphellir, gamalt bæjarstæði og kirkjugarður Höfðabrekku.

 

Leiðarlýsing: Gengið suður að þjóðveginum, austur með honum að Kötlugarði. Það er sveigt að fjallsrótum austur með Höfðabrekkuhömrum og Runkakórum að Kaplagörðum. Þar gengið upp Kaplagarða eftir gamalli þjóðleið upp á brúnina. Fyrst er komið að Klukknahelli svo að gamla bæjarstæðinu og kirkjugarðinum. Niður af gamla bæjarstæðinu er Tíðabrekka. Af Háfelli (295 m) er gott útsýni. Loks er gengið vestur Höfðabrekkuháls að upphafsstað.

Höfðabrekka er austasti bær fyrir vestan Mýrdalssand. Höfðabrekka er gamalt höfðuból, kirkjustaður og stórbýli til forna. Í Kötluhlaupi árið 1660 tók bæin af og var hann þá fluttur upp á heiðina og var hann ekki fluttur niður aftur fyrr en 1964. Á 17. öld bjó fræg ætt á Höfðabrekku en talið er að í eigu þeirra hafi verið virtasta handrit Eddukvæða; Konungsbók Sæmundar-Eddu. Á Höfðabrekku fæddist Magnús Stephensen (1836-1917) landshöfðingi. Þar fæddist líka Einar Ólafur Sveinsson prófessor og fyrsti forstöðumaður Handritastofnunar Íslands 1899. Við Höfðabrekku er kenndur þekktasti draugur Mýrdalsins, Höfðabrekku-Jóka sem var alræmdur draugur fyrr á öldum og ganga af henni ýmsar sagnir. Var Jóka áður húsfreyja á Höfðabrekku en mislíkaði, er vinnumaður hennar, Þorsteinn að nafni, gat með dóttur hennar barn, og heitaðist við hann. Þegar Jóka var dáin tók fljótlega að bera á henni m.a. sást hún oft í búri, skammtaði þar mat en lét jafnan mold saman við. Að Þorsteinni vinnumanni sótti hún svo, að hann varð að flýja út í Vestmannaeyjar og hélst hann þar við í 19 vetur. Er hann kom loks í land, þá beið Jóka hans í fjörunni og þreif hún Þorsteinn á loft og færði hann svo hart niður að hann var jafnskjótt dauður.

Í dag er rekið myndarlegt hótel að Höfðabrekku.

Höfðabrekka. Mynd: Þ. N. Kjartansson 

Remundargil

Vegalengd: 12,5 km
Hækkun: 250 m
Göngutími: 3-5 klst fram og til baka
Upphafsstaður: Þakgil. Fært er á öllum bílum inn í Þakgil. Ekið er frá þjóðvegi (1) um Kerlingardalsveg (214) og áfram inn heiðarnar (gamla þjóðveginn).
Athugaverðir staðir: Remundargilsfoss, Þakgil

 

Leiðarlýsing: Gegnið er frá Þakgili framgilið, farið er upp austan megin á móts við Miðfellshelli og yfir hálsinn í austurátt að Remundargilsfossi. Haldið er til baka sömu leið að hluta og fram úr gilinu fram fyrir Remundargilshöfuð. Farið er inn með Remundargilshöði inn gil milli þess og Vatnsrásarhöfuðs. Þar upp í skarðinu er stórkostlegt útsýni yfir Kötlujökul sem brýst fram úr Mýrdalsjökli. Til baka er gengið í gegnum Láguhvola, framan við Hvolhöfuð og veginum svo fylgt inn í Þakgil.

Austurafréttur

Vegalengd: 17 km
Hækkun: 500-600 m
Göngutími: 6-8 klst fram og til baka
Upphafsstaður: Þakgil. Fært er á öllum bílum inn í Þakgil. Ekið er frá þjóðvegi (1) um Kerlingardalsveg (214) og áfram inn heiðarnar (gamla þjóðveginn).
Athugaverðir staðir: Þakgil

 

Leiðarlýsing: Gegnið eftir Þakgili að Miðfellshelli en þar lágu gangnamenn við á haustin. Þaðan er gengið eftir vegarslóð með Miðfell á hægri hönd, upp Miðafrétt austan Miðtungugils inn að fossinum Leyni, þaðan norður um Sker (749 m) austur á Rjúpnagilsbrýr, síðan er gengið niður Austurafrétt (Höfðabrekkuafrétt). Að Iðrunarstandi, um Árnabotna og Vestureggjar og þaðan niður í Þakgil eða á vegarslóð austan Hvolhöfuðs. 

 

 

 

Mælifell

Vegalengd: 13,5 km
Hækkun: 400-500 m
Göngutími: 4-5 klst fram og til baka
Upphafsstaður: Þakgil. Fært er á öllum bílum inn í Þakgil. Ekið er af þjóðvegi (1) um Kerlingardalsveg (214) og áfram inn heiðarnar (gamla þjóðveginn)
Athugaverðir staðir: Þakgil

 

Leiðarlýsing: Gengið eftir Þakgili að Miðfellshelli en þar lágu gangnamenn við á haustin. Þaðan er gengið eftir vegarslóða með Miðfell á hægri hönd, upp Miðafrétt austan Miðtungugils inn að fossinum Leyni. Þaðan til suðurs upp á Mælifell og um austurbrúnir Raufargils suður á Barð, niður að skála Ferðafélags Mýrdælinga og þaðan aftur í Þakgil. Hugsanlegt er að vaða þurfi Afréttisána á leiðinni í Þakgil, það fer þó eftir því hvernig áin liggur.

 

 

 

 

 

 

 

Gæsavatn

Vegalengd: 19 km
Hækkun: 650 m
Göngutími: 6-8 klst fram og til baka
Upphafsstaður: Ekið frá þjóðvegi (1) um Heiðardalsveg. Stoppað er á Falli (sjá kort) en þar hefst gangan. Einnig er hægt að ganga frá Vík.
Athugaverðir staðir: Gæsavatn

 

Leiðarlýsing: Gengið til norðurs um slétta mýri og móa í átt að Sofndölum. Um austurbrúnir Sofndala, til móts við Hrafnatind er sveigt til austurs inn á smalaveg sem þar er. Veginum fylgt á Vatnsdalsbrún og gengið með Vatnstind austanverðum. Gæsavatn situr í sprengigíg sem myndaðist á síðasta jöklaskeiði ísaldar, þ.e. fyrir meira en 10.000 árum. Gengið inn með Vatnstindi að austanverðu á Norðurgilshaus. Síðan lítið eitt til baka og þar niður á Norðurgilsbrún. Gengin er sama leið til baka.

 

Búrfell

Vegalengd: 7 km
Hækkun: 290 m
Göngutími: 2-3 klst fram og til baka
Upphafsstaður: Ekið frá þjóðvegi (1) um veg (264) að bænum Steig. Þar er hægt að leggja bílnum og hefst gangan þar.
Athugaverðir staðir:
 

Leiðarlýsing: Gengið frá Steig inn með brekkunum að Guttabólum og Illagili, þaðan að Búrfelli, gengið á fellið um skarðið milli hnúkanna, eða farið í Háaskjól undir syðri hnúknum. Af Búrfelli er mikið útsýni yfir Mýrdalinn. Gengið til baka vestur eftir Steigarhraunum að Steig.

Búrfell er stakt móbergsfjall nyrst á Steigarhálsi og skiptist í tvo hnúka. Syðri hausinn heitir Skjólhaus en á nyrðri hausnum ber svokallaðar Eggjar (333 m) æst. Undir Skjólhaus er dalur sem heitir Skjóldalur og upp af honum Háaskjól. Góð fjárból voru þar og munmæli sögðu að hval ræki á Hvolsfjöru ef þau væru hreinsuð vel út. Sögn er um að göng hafi legið milli Háskjóls og hellis sem Vömb heitir í Vatnsársundum austur af Heiðardal.  Sagan segir að eitt sinn hafi verið smalamaður í Mýrdal sem átti að taka af. Var hann að koma af sjó er þeir komu að sem áttu að taka hann og flytja á aftökustað. Smalinn stökk af skipinu í sjóskóm og skinnklæðum og komst undan upp í Háaskjól og eltu óvinir hans hann allt að hellismunna þar. Hélt smalinn áfram inn eftir hellinum í niðamyrkri og kom hann að lokum út í helli austur í Vatnsársundum. Kvaðst hafa vaðið ysjusand mikinn sem fyllti skó hans. En þegar hann kom í birtuna voru skórnir fullir af gullsandi og keypti hann sér frelsi fyrir gullið. (Þjóðsögur Jónas Árnasonar, I-V. bindi, 1954-1958) 

 

 

Fell

Vegalengd: 8,5 km
Hækkun: 400 m
Göngutími: 3-4 klst fram og til baka
Upphafsstaður: Austan Fells við mynni Holtsgils. Ekið frá þjóðvegi (1) um veg sem liggur norðan Péturseyjar að Álftagróf og Felli. Stöðvað er austan við Fellu og hefst gangan þar.
Athugaverðir staðir:
 

Leiðarlýsing: Gengið eftir vegarslóð upp á heiðina og inn fyrir Selgilsbotna, þaðan til vesturs á brúnir Fossgils, þá fram heiðina niður á Lynghöfða, þar til austurs að Fjallsfjalli og frameftir því og svo niður brekkurnar syðst í fjallinu við vestanverðu. 

Fell var forðum stórbýli og löngum prestssetur Sólheimaþing. Jörðin átti mikil og góð slægjulönd suð-vestur af Fellsfjalli. Þar stóð bærinn áður við svonefndan Bæjarlæk. Á 19. öld tók Klifandi að ganga mjög á slægjulöndin og undir lok aldarinnar var bærinn fluttur undan ágangi árinnar. Hafúrsá gerði um þetta leyti mikinn skaða á slægjulöndm nokkurra jarða í Mýrdal og fengu bændur þar Ögmund í Auraseli í Fljótshlíð til þessað veita henni aftur í fyrri farveg en hann þótti kunna nokkuð fyrir séð í þeim efnum. Notaði hann gráan fresskött og grátt ullarreyfi við þessar aðgerðir og enginn mátti nálægt koma meðan karl var við iðju sína.  Presturinnsem þá bjó á Felli skopaðist að hjátrú bændanna og frétti Ögmundur af því. Sendi hann einum bóndanum bréf og bað hann að sýna preti og var þar í vers úr Passíusálmunum; ,,Ókenndum þér þótt aumur sé/ aldrei til legðu háð né spé,, - o.s. frv. Sagt er að presti hafi brugðið nokkuð við þessa orðsendingu, en skömmu seinna braust Klifandi heim að bænum í miklu vatnskasti. Var bærinn þá fluttur ustur að brekkurótum sunnan í Fellsfjall. - Í hlíðinni vestur af núverandi bæ er Völvuleiði. Sagt er að völva hafi áður búið á Felli og mælt svo fyrir áður en hún dó að hana skyldi grafa þar sem fyrst skini sól að morgni og færi síðast af að kvöldi. Hún mælti svo fyrir að eigi skyldi slá leiði sitt enda myndi sá illt af hljóta er það gerði, en þeim mundi vel vegna á Felli er héldu þessa kvöð. Þá kvöð lagði hún á  ábúanda Fells að greiða 60 fiska til fátækra á ári hverju umfram það er þeim bæri með réttu að gjalda. Hélstu sú hefð allt fram á seinni hluta 20. aldar að greiða toll þennnan í svonefndan Völvusjóð til styrktar fátækum. Einnig þótti sjóðurinn góðurinn góður til áheita. - Séra Jón Steingrímsson var prestur í Sólheimaþingum, áður en hann flutti að Prestsbakka á Síðu, og bjó á Felli 1760-1778. Endurbyggði hann hús þar og eru bæjarrústirnar á Gamla-Felli, sem svo er kallað, trúlega að grunni til frá hans tíð. Fleirir ummerki má sjá á þessum slóðum frá tíð séra Jóns. - Lönd Fells, Álftagrófar og Keldudals voru leigð til skógræktar á vegum Skógræktarfélags Reykjavíkur árið 1989 og kallast skógræktarsvæðið Fellsmörk. 

 

 

 

 

 

 

 

Pétursey 

Vegalengd: 2 km
Hækkun: 240 m
Göngutími: 1-3 klst fram og til baka
Upphafsstaður: Við Sindravöll. Ekið frá þjóðvegi (1) um Péturseyjarveg (219) að Sindravelli.
Athugaverðir staðir: Pétursey

 

Leiðarlýsing: Frá Sindravelli er farið yfir stiga á girðingu í stað þess að opna hlið. Gengið þaðan austur fyrir Eyjarhelli í norðvestanverðu fjallinu. Þar eru gengnir sneiðingar um brattar skriður upp á fjallið. Gönguleiðin er stutt, en brött og krefjandi. Stórkostlegt útsýni til allraátta er af Pétursey í fögru veðri. Farið er niður sömu leið.

Pétursey er fallegt fjall, 275 metra hátt, með hamraflugum hið efra yfir blómskrúðugum brekkum, efnið er að mestu móberg með nokkrum basaltinnskotum. Öll er eyjan mynduð við eldgos, eins og raunar öll fjöll í Mýrdalnum. Líklega hefur hún myndast sem eyja við ströndina en endurtekið jökulhlaup hafa síðan fært út sröndina og umlukið Pétursey sandi. Eyjarhóll sunnan Péturseyjar er basaltstrýta, tappi í fornri eldstöð.  Eyjan hefur ekki farið varhluta af búsetu fýlsins, enda ber gróður hennar þess merki að víða hefur honum verið séð fyrir ærnum áburði, eins og reyndar í flestum hömrum í Mýrdalnum. Í klettabeltinu í auðaustanverðu fjallinu er Sléttabergshellir og segja munmæli að Loðmundur hiss gamli á Sólheimum hafi falið þar peninga sína. Lengi vel og enn í dag er sá átrúnaður að í Pétursey sé að finna híbýli álfa og huldufólks enda eru þar margir álagablettir sem ekki má hrófla við.

Mynd: Þ. N. Kjartansson

Eystri-Sólheimaheiði

Vegalengd: 13,6 km
Hækkun: 480 m
Göngutími: 6-8 klst fram og til baka
Upphafsstaður: Ekið frá þjóðvegi (1) og beygt inná veg heim að Eystri Sólheimum. Beygt er til hægri út af veginum þar sem að vegurinn fer upp heiðina. Gætið þess að loka hliðinu sem ekið er um. Eftir að komið er í gegnum hliðið er bílnum lagt.
Athugaverðir staðir: Sólheimaheiði

 

Leiðarlýsing: Gegnið er upp heiðarveginn, upp Eystri-Sólheimaheiði, austan Skógargils. Gengið er upp Litlu- og Stórumýri og svo austan við Arnardali inn að Lambagili, þar til austurs að Klifrárgili og niður með því fram á Ártungnahöfuð, þaðan fram Hrútagilsháls og svo láglendið til suðurs að upphafsstað. Leiðin er mikilfengleg og falleg.

Sólheimaheiði er heiði sem er að miklum hluta basaltsvæði, frekar illa gróið og nema hlíðarnar að sunnan. Undir heiðinni standa Sólheimabæirnir og litlu vestan við bæina rennur lítil bergvatnsá er ber heitið Húsá. Áður fyrr voru miklu fleiri búendur á gjöfulum Sólheimajörðunum. Kirkja var á Sólheimum, nefndist sóknin Sólheimasókn en henni tilheyrðu bæir vestan Klifanda. Fyrir neðan bæina er Sólheimasandur og niður sandinn rennur Jökulsá á Sólheimasandi og á það landflæmi að vera enn eitt handverk Kötlu. En af því fara tvennar sögur. Sagan segir að Loðmundur á Sólheimum hafi verið fjölkunnugur mjög og ósjaldan átt í illdeilum við nágranna sinn, Þrasa í Skógum, sem ekki síður kunni ýmislegt fyrir sér í fjölkynngi. Hafi þeir oft á tíðum skipst á að veita ánni inná land hvors annars og þannig sé tilvera sandauðnarinnar tilkominn. Er uppá heiðina er komið er útsýnið stórfenglegt yfir þetta afkvæmi Loðmundar og Þrasa (eða Kötlu) og er hægt að aka langleiðina upp að Mýrdalsjökli á vel búnum bílum. Fyrir ævintýraþyrsta ferðalanga er rekin þar snjósleðaleiga yfir sumarmánuðina.

 

 

 

 

 

 

Mynd: Þ. N. Kjartansson

Lakaland

Vegalengd: 16 km
Hækkun: 550 m
Göngutími: 6-8 klst fram og til baka
Upphafsstaður: Við skógarreit Skógræktarfélags Mýrdælinga í Gjögrum. Þangað er ekið um vegarslóða frá þjóðvegi (1) um 2 km austan við brúna á Jökulsá á Sólheimasandi, skammt vestan Hólsár.
Athugaverðir staðir: Sólheimajökull
 

Leiðarlýsing: Gegnið upp með Hólsárgili, um Selheiði og Hrossatungur að Lakaþúfugili. Það er sveigt til suðausturs þar til komið er inn á Mýrdalsjökulsveg (222) og gengið til baka eftir honum niður á Sólheimasand og til vesturs að Gjögrum.

Jökulsá á Sólheimasandi og Sólheimajökull. Jökulsá á Sólheimasandi er stutt og straumhörð jökulsá, tíðum nefnd Fúlilækur áður fyrr en oft leggur af henni sterkan brennisteinsþef. Upptök hennar eru undir Sólheimajökli og í Jökulsárgili vestan Hvítmögu, sem er afréttarland frá Sólheimajörðum. Sólheimajökull, skriðjökull frá Mýrdalsjökli, um 8 km langur, liggur með Hvítmögu að austan niður á láglengið.  Á síðustu árum hefur jökulinn hopað hratt vegna hlýnunar andrúmsloftsins. 

 

 

 

 
 
 
 
 
Mynd: J. Erlendsson