Flokkunarleiðbeiningar

Mýrdalshreppur flokkar enn betur

Gámasvæði Mýrdalshrepps, Gámavellir, er að Smiðjuvegi 1a, þar er tekið á móti öllum flokkum.

Til að tryggja réttan farveg fyrir það sem losað er á Gámavöllum er afar mikilvægt að allt fari í rétta gáma og því skal fylgja merkingum og leiðbeiningum þar um. Á Gámavöllum má losa alla málma, brotajárn, hjólbarða, heyrúlluplast, bylgjupappa, spilliefni, raftæki, gler, grófan, úrgang og garðaúrgang. Þá er einnig hægt að koma með allan heimilisúrgang úr Gráu og Grænu tunnunum ef þær yfirfyllast heima.

Athugið: Moltu má nálgast  innan við hliðið á Gámavöllunum, öllum að kostnaðarlausu.

Reglur um flokkun á gámasvæðinu:

 • Málmar: Í þar til merktan opin gám við rampinn. Stærri hlutir (t.d. bílar og grófir hlutir) eiga að fara í brotajárnshaug.
 • Dekk: í merktan haug.
 • Grófúrgangur/óendurvinnanlegur: í merktan opin gám við rampinn.
 • Heimilisúrgangur/óendurvinnanlegur: í merktan lokaðan gám við rampinn. Í hann fer einnig úrgangur sem getur auðveldlega fokið svo sem einangrunarplast.
 • Heyrúlluplast: í merktan opin gám við rampinn.
 • Húsið á gámavellinum er opið á opnunartíma: Þangað inn á gólf fer bylgjupappi, spilliefni, öll heimilis- og raftæki, plastfilmur, plastpokar og annað plastefni (sbr. merkingu á húsi).
 • Móttaka endurvinnsluumbúða, er opin í húsinu á gámavellinum miðvikudaga frá kl. 15:00 til 18:00

Athugið: Mikilvægt er að ekki fari annað í gámana en merkingar segja til um. 

 • Öll umferð inn á gámavöllinn af varnargarðinum er stranglega bönnuð.
 • Gámar við Pétursey eru eingöngu ætlaðir fyrir grófúrgang og málma. Heimilstæki og spilliefni svo og endurvinnanlegur úrgangur á að koma á gámavöllin í Vík.
 • Fatagámar frá Rauða krossinum eru staðsettir við Gamla sláturhúsið, Sunnubraut 14-16 í Vík.
 • Munið að flokkun úrgangs og góð umgengni hjálpa okkur að vernda náttúruna og nýta verðmæti.
Flokkum rétt í grænu tunnuna

Græna tunnan er fyrir enduvinnanlegar umbúðir úr plasti, pappír, pappa og smáa málmhluti.

Borið hefur áþví að í Grænu tunnuna fari hlutir úr plasti sem ekki er hægt að senda til endurvinnslu. Til að hægt sé að ednurvinna plastumbúðir þurfa þær að vera hreinar. Það er því mikilvægt að tæma flöskur og hreinsa matarleifar úr umbúðunum, annars eiga þær heima með almennu sorpi. Áríðandi  er að setja allar (nema þær allra stærstu) plastumbúðir í glæran plastpoka til að auðvelda flokkun af færibandi úrvinnslustöðvar.

Óhreinar umbúðir í Grænu tunnunni geta eyðilagt annað endurvinnsluhráefni. 

Flokkum rétt í brúnu tunnuna

Í Brúnu tunnuna fer lífrænn eldhúsúrgangur sem er sá úrgangur sem fellur til í eldhúsum heimila og fyrirtækja.

Úr brúnu tunnunni fer lífræni eldhúsúrgangurinn í jarðgerð og honum umbreytt í moltu sem t.d. er hægt að nýta í landgræðslu og skógrækt.

Mjög mikilvægt er að ekkert plast fari með í Brúnu tunnuna því það brotnar ekki niður í jarðgerðinni og einnig getur skapast fokhætta af plastinu í sjálfri jarðgerðinni.

Flokkum spilliefni

Spilliefni er flokkur margra mismunandi efna sem eiga það sameiginlegt að innihalda efni sem hafa óæskileg áhrif á umhverfið. Mörg spilliefni hafa einnig heilsuspillandi áhrif.

Spilliefni geta verið óblönduð eða hluti af öðrum efnum eða jafnvel umbúðir sem hafa komist í snertingu við spilliefni.

Það er afar mikilvægt að flokka spilliefnaúrgang sérstaklega, til að koma í veg fyrir að hann sé urðaður með almennum úrgangi eða valdi skaða á annan hátt. Mjög mikilvægt er að ekkert spilliefni eins og málning, prenthylki, rafhlöður o.s.frv. fari með í Svörtu tunnuna.