Saga Mýrdalshrepps

Um sveitarfélagið

Mýrdalurinn er hluti af Skaftárþingi en undir það lúta bæði Vestur- og Austur-Skaftafellssýsla. Mýrdalurinn var að mestu numinn af Reyni-Birni og Loðmundi gamla að undanskildu svæðinu austan Kerlingadalsár og voru landamerkin við Hafursá. Hinn forni Dyrhólahreppur náði yfir allt landsvæði núverandi Mýrdalshrepps.

Mýrdal var skipt í tvö sveitarfélög árið 1887, Dyrhólahrepp og Hvammshrepp. Í ársbyrjun 1984 voru hrepparnir sameinaðir að nýju og heitir sveitarfélagið nú Mýrdalshreppur. Hreppurinn afmarkast af Jökulsá á Sólheimasandi að vestan og Blautukvísl á Mýrdalssandi að austan. Mýrdalshreppur er einn af þremum sveitarfélögum í Katla UNESCO GLOBAL Geopark. Flatarmál sveitarfélagsins er 760,8 km2. Íbúar Mýrdalshrepps voru 747 í apríl 2021. 

Sveitin er grasi gróin, en beljandi jökulfljótt og víðáttumiklir sandar mynda mótvægi við gróðurlendið. Víða til heiða eru fjöllin mjög sundurskorin af hrikalegum gljúfrum. Mest eru þetta fornar sprungumyndanir sem skriðjöklar og jökulár hafa mótað. Í megindráttum er um að ræða móbergssvæði, ung jarðmyndun, sem ýmist er mynduð við neðansjávargos eða gos undir jökli. Í Mýrdalshreppi eru margar stórbrotnar náttúruperlur og má þar nefna Dyrhólaey, Víkur- og Reynisfjöru, Reynisdranga, Hjörleifshöfða, Mýrdalsjökul en í honum er eldstöðin Katla, Sólheimajökul sem er skriðjökull og gengur út frá Mýrdalsjökli, Heiðardalinn, Höfðabrekkuheiði, Höfðabrekkuafrétt, Þakgil og Gæsavatn. Helstu atvinnugreinar í Mýrdalshreppi er ferðaþjónusta, landbúnaður, verslun og opinber þjónusta. 

Ferðaþjónustan hefur þróast mjög hratt undanfarin ár og hefur fjöldi hótela, gistiheimila og heimagistinga aukist mikið. Einnig hafa nýir veitingastaðir opnað.  Afþreyingin hefur aukist og má þar nefna íshellaskoðun, hestaleigu, jöklagöngur, svifvængjaflug, Zip line, golf og fleira. 

Í þorpinu í Vík eru nokkur gömul hús sem hafa verið gerð upp í upphaflegri mynd og má þar nefna Brydebúð sem hýsir nú upplýsingarmiðstöð, skrifstofur og er nú miðstöð menningarmála og ferðamála í Mýrdalshreppi. Skipið Skaftfellingur er hýstur í skemmu sem stendur í gamla hluta þorpsins og er þar einnig sýning sem sýnir sögu skipsins og skipsstranda í Vestur- Skaftafellssýslu.

Fjölbreytt menningarlíf er í Mýrdalum,  þrjú kvenfélög, Linsklúbburinn Suðri, björgunarsveitin Víkverji o.fl. Aðra helgina í óktóber ár hvert er haldin menningarhátíð sem ber nafnið Regnboginn, list í fögru umhverfi. Tónlistarviðburðir eru haldnir í kirkjunni og einnig í Skaftfellingsskemmunni. Þá er orðin árleg hefð að halda fýlaveislu á Ströndinni í Víkurskála en þá koma saman heimamenn og brottfluttir og borða saman saltaðan fýl. 

Mynd: Þ. N. Kjartansson

Landnámið

Í Landnámabók getur um einn fyrsta bústað norrænna manna á Íslandi í Hjörleifshöfða með komu Hjörleifs Hróðmarssonar, fóstbróður Ingólfs Arnarsonar, í upphafi landnáms. Svo segir í Landnámu

Hjörleifur tók land í Hjörleifshöfða og var þá þar fjörður og horfði botninn inn af höfðanum. Hjörleifur lét gera þar skála tvo og er önnur tóftin átján faðmar en hinn nítján. 

En sú vist var ekki löng, þar sem þrælar Hjörleifs drápu hann úr launsátri og flúðu til Vestmannaeyja. Heita eyjarnar eftir þeim Vestmönnum sem reyndust vera hinir svikulu þrælar Hjörleifs. Efst á höfðanum er grjóthrúga mikil á sandblásnum mel en munnmæli herma að þar sé Hjörleifur heygður. Er haugur þessi nefndur Hjörleifshaugur. Markús Loftsson, bóndi og fræðimaður lét gera grafreit efst á Höfðanum við hlið Hjörleifshaugs með ærinni fyrirhöfn þar sem flytja þurfti grjót og jarðvegsefni langa leið að. Þar er hann sjálfur jarðsettur ásamt þriðju konu sinni, Áslaugu Skæringsdóttur, bróður sínum Sigurði Loftssyni og einu barni. 

Á Sólheimum nam land Loðmundur hinn gamli og náði landnám frá Hafursá að Jökulsá á Sólheimasandi. Áður hafði hann komið á land í Loðmundarfirði en hann hafði varpað öndvegissúlum sínum fyrir borð og þær rekið upp að Sólheimafjörum. Löngum átti hann í illdeilum við nágranna sinn, Þrasa í Skógum. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir svo: 

Þrasi bjó í Eystriskógum, sumir segja á Þrasastöðum, skammt austur frá Skógafossi; Skógar eru nú austastur bær í Rangárvallasýslu. Þá bjó Loðmundur í Sólheimum, næsta bæ fyrir austan Sólheimasand, og voru þeir því nágrannar. Þeir Þrasi og Loðmundur voru báðir fjölkunnugir mjög. Á sú féll milli landa þeirra er Fúlilækur hét, en síðan Jökulsá á Sólheimasandi. Þessari á veittu þeir hver á annars land sem Landnáma segi; því hvorugur vildi hafa hana nærri sér. Af þessum veitingum og vatnagangi varð sandur graslaus sem Sólheimasandur heitir og sér þar enn marga farvegi sem áin hefur runnið um í það og það skiptið. Loksins sáu þeir nágrannarnir landauðn þá sem af þessu varð. Svo hagar til að austan megin Jökulsár gengur háls einn í Sólheimaheiði frá fjallinu fram með ánni og heitir hann Loðmundarsæti; en vestan megin árinnar þar á móts við í neðanverðu Skógafjalli er kallaður Þrasaháls. Fellur svo áin úr gljúfrum milli þessara hálsa fram á sandinn. Á þessum stöðvum segja menn að þeir Þrasi og Loðmundur hafi hafst við meðan þeir veittust vötnum á enda segir bæði Landnáma og munnmælin að þeir hafi sætst það við gljúfrin á það að áin skyldi þaðan í frá renna þar um sandinn sem styst væri til sjávar, og það varð. En svo þykir sem allajafna sé öfugstreymi í á þessari og falli önnur bára að neðan, andstreymis, þegar hin fellur að ofan, forstreymis, og segir sagan að sú ónáttúra árinnar sé komin af viðureign þeirra Þrasa og Loðmundar. 

(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands) 

Þóttu Sólheimar kostajörð mikil en hefur latið á sjá vegna ágangs Kötluhlaupa fyrr á öldum. Ekki eru til öruggar heimildir fyrir hvar bær Loðmundar stóð en talið er að bæjarsæðið sé á Ytri-Sólheimum þar sem kirkjan stóð. Sagnir herma að haugur Loðmundar sé í Sólheimanesi; er það nefnt Loðmundarleiði, og að leiði konu hans, Gráfríðar, sé í díki fyrir norðan Sólheimahjáleigu. Kirkjustaður var á Sólheimum frá fornu fari og er kirkjunnar getið í máldaga 1179. Krikja þessi var í eigu bænda en var lögð niður 1898 og gekk land í eigu kirkjunnar, þ.e. helmingur Sólheimajarða gekk þá til bænda þeirra er áttu kirkjuna. Kapella var reist á gamla kirkjustæðinu og stendur enn. 

Eystri hluti Mýrdalshrepps er í landnámi Reyni - Bjarnar af Valdresi í Noregi en hann nam land milli Hafursár og Kerlingadalsár og bjó hann á Reyni. Var illt milli þeirra Loðmundar en ekkiHjörleifshaugur getur frekar um illdeilur þeirra í Landnámu. Ennfremur getur Njála í landnámi Reyni-Bjarnar um bústað Kára Sölmundarsonar á Dyrhólum. Kirkjustaður hefur verið á Reyni frá því skömmu eftir kristnitöku.

Jarðirnar fyrir austan Kerlingadalsá, eða ´´fyrir austan heiði´´ eru ekki taldar með landnámi Reyni-Björns. Eysteinn, sonur Þorsteins drangakarls, braut skip sitt í landi Fagradals eins og frá segir í Landnámu og er Fagridalur landnámsjörð hans.  

Höfðabrekka er talin vera landnámsjörð Sigmundar Kleykis en ekki er getið bæjarnafns í Landnámu. Höfðabrekka kemur lítillega við sögu í Njálu en getur þar um Þorgrím Skrauta, son Þorkels hins fagra en í þætti af Þorleifi Jarlaskáldi segir að þar hafi hann eytt síðustu æviárum sínum. Höfðabrekka hefur löngum verið talin höfðingjasetur og hefur margt stórmennið setið jörðina. Kirkja var á Höfðabrekku frá 12. öld er jörðin komst í eigu Oddaverja og var kirkjustaður allt fram til ársins 1924. 

Sonur Sigmundar Kleykis, Vémundur smiður, er talinn hafa átt bústað í Kerlingadal, eða Kerlingafirði eins og um getur í Landnámu. Galdra - Héðinn bjó í Kerlingadal en hann á að hafa reynt að koma Þangbrandi presti fyrir kattarnef þegar hann boðaði Íslendingum kristna trú. Munnmæli herma að þeir brennumenn sem Kári og Þorgeir skorageir höfðu bannað séu heygðir í nesi einu niður við Kerlingadalsá. Í Kerlingadal var hálfkirkja undir Höfðabrekkusókn og sat þar bæði djákni og pretur. 


Lífshættir og kjör

Sökum smæðar og einangrunar var Mýrdalurinn eitt af fátækari héruðum landsins og ekki síst fyrir þær sakir að aðeins lítill hluti ábúenda voru sjálfseignarbændur. Flestar jarðir voru klausturjarðir sem síðan urður konungseign við siðaskiptin 1550, því var þorri bænda fátækir leiguliðar. Tíðarfar reyndist oft óhagstætt og íbúar sveitarinnar mun berskjaldari fyrir náttúruöflunum. Fólk bjó mun þéttar saman en í dag og voru ósjaldan margar hjáleigur við hverja jörð. 

Sá húsagerðarháttur var alvanalegur að margir bæir voru byggðir á sömu jörðinni og þótti það vekja athygly utanbæjarmanna. Eggert Ólafsson segir svo frá um ferð sína í Skaftafellssýslu 1756:

Húsunum er fagurlega skipað á bæjunum og sérstaklega þó í Skaftafellssýslu, þar sem margir bæir eru reistir saman á einni jörð. Bæirnir eru áfastir og standa húsin öll í einni röð. Á fjölbýlisjörðunum í Mýrdal og í Síðu, þar sem 3, 6 eða janfvel 9 bæir standa saman, líkist þetta dálitlum þorpum með einni götu, þar sem mörg hús eru á hverjum bæ. Sums staðar standa fjós og hesthús að húsabaki, og til forna var svonefndur húsagarður hlaðinn í kringum bæjarhúsin og sést hann enn á nokkrum stöðum. Skapast þá reglulegur ferhyrningur af bæjarhúsum og hlaðinn fyrir framan þau. 

 (Ferðabók Eggerts Ólafssonar; II. bindi, bls. 151. Sjá einnig: Sunnlesnkar byggðir - Skaftárþing, VI. bindi, bls. 508).

Þessi lýsing Eggerts gefur greinargóða mynd af því hvernig bændur í Mýrdal bjuggu við mikla nálægð og í samvinnu hver við annan en óhætt er að segja að samvinna sú hefur fylgt Mýrdalsbændum allt fram á þennan dag. Mannmargt var á hverjum bæ, enda oft nokkrir ættliðir ásamt vinnufólki er deildu með sér sama húsnæði. 10-15 manns þótti eðlileg meðalstærð á hverju heimili og tíðkaðist slíkt fyrirkomulag á heimilum langt fram á 20. öld.

Þar sem innanhússkynding var af skornum skammti í skjóllitlum húsakynnum tóku Mýrdælingar snemma uppá því að byggja fjósbaðstofur. Var þá baðstofuloft byggt yfir fjósið þannig að fólkið naut ylsins er steig upp af blessuðum kúnum og gerði það vist og líðan fólksins bærilegri þegar kaldast var, enda voru kyndiofnar ekki á hverju strái. Lengi vel þótti þetta hin mesta óhæfa hjá ´´siðmenntuðu fólki´´ að stofa hjá skepnunum.

Í ferðabók sinni lýsir Sveinn Pálsson, læknir húsakynnum Mýrdælinga árið 1793 á eftirfarandi hátt:

Í þessari sveit, Mýrdalnum, hafa menn þann ljóta vana - einnig og nábúar þeirra austar - að hafast við í fjósinu. Þeir hafa það þó til afsökunar sér eins og hinir, að þá vatnar timbur og hentugt efni í þök. Er því auðveldara fyrir þá að reisa og halda við aðeins einu húsi, þar sem fólkið getur setið þurrt, heldur en tveim eða fleiri, enda hefur efnað fólk ekki þennan sið. 

(Seinn Pálsson: Ferðabók, bls. 321. Sjá einnig: Sunnlenskar byggðir - Skaftárþing, VI. bindi, bls. 508) 

Þrátt fyrir þessa gagnrýni var baðstofuloftið að öllu leyti mjög hagstætt fyrirkomulag við þær aðstæður sem fátækir bændur bjuggu við. Má segja að hér hafi Skaftfellingar stigið fyrsta skrefið í nýtingu umhverfisvænnar orku til upphitunar á húsum. 

Mýrdælingar voru þannig í fleiri en einum skilningi háðir húsdýrum sínum, enda fór mest öll matvælaframleiðsla fram heima fyrir. Blandaður búskápur var blátt áfram nauðsunlegur til þess að afla sem mestra aðfanga; mjólk og mjólkurafurðir voru unnar heima fyrir sem og ullin í föt og sauðakjötið verkað sem annars staðar á landinu. Hrossin þóttu nausynleg, ekki hvað síst til lengri ferðalaga sem þurfti að fara, hvort sem það var á milli bæja eða sveitarfélaga. Ásamt löngum og erfiðum verslunarferðum fóru bændur ósjáldan í verstöð að hausti, þá ýmist til Reykjavíkur eða alla leið vestur á Snæfellsnes og dvöldu þar yfir vetrartímann á meðan húsmæður sáu fyrir börnum og búi. 

Staðsetningin við sjóinn færði Mýrdalsbændum rík hlunnindi er veittu lífsnauðsynlega björg í bú. Sjóreki þótti oft koma í góðar þarfir þar sem bændur fengu oft verðmæt byggingarefni ásamt ýmsu öðru góssi. Þó heimtuðu kirkjur og klaustur oft drjúgan hluta rekans af leiguliðum sínum. Ekki hefur verið mikið um skipsströnd vestan Mýrdalshrepps miðað við Meðallandsfjörur austan sandsins enda hefur vitinn við Dyrhólaey (byggur 1915) komið mörgum skipum til bjargar.

Uppúr 1830 hófu Mýrdælingar að veiða fýl, enda er mikið af fýl í björgum í Mýrdal. Veiðiaðferðir voru ýmsar. Um skeið var notast við háf, ekki ósvipaðan þeim sem lundinn er veiddur í ogFýlaveiði þótti sú veiðiaðferð bera ágætan árangur. Oft var reynt að skjóta fýlinn niður af færi en ekki þótti það alltaf happadrjúgt  þar sem fuglinn datt oft ekki niður úr berginu og rotnaði þar uppi. Freistuðust menn oft að klífa björgin og ná fýlnum þannig, en það þótti oft á tíðum mikið hættuspil, ekki síst fyrir þær sakir að búnaður manna var æði frumstæður miðað við það sem gengur og gerist í dag. Gríp ég hér niður í frásögn Einars Finnbogasonar frá Þórisholti:

Á þessum... stað var ég síðastur allra við veiði. Því þá kom svo mikið hrap þar, að ekki hefir verið veitt þar síðan. Þarna sat ég fram á miðjan dag, og var alltaf að smá hrapa í kringum mig, en ágirndin var yfirsterkari, því afli var góður. Samt fór svo, að mér þótti ekki lengur sætt. Fleygði ég þá fýlnum niður fór svo sjálfur á eftir. Varð fyrst að fara ofan festi um 3 faðma; var þar heillisskúti, en úr honum lá berghilla á ská niður. Á því augnabliki, sem ég var kominn í þennan (svo) skúta, kom svo ógurlegt hrap, að klettar, stórir eins og heybaggar, komu þarna niður. Hjuggu þeir burt bergsnösina, sem ég hafði setið á, og fleyg þann, sem festinn hékk á. Þegar hrapið var hjá farið, fór ég ofan, en nú var eftir að ná fýlnum sem hafði lent í hrapinu. Tók ég mér stöðu til hliðar, og neytti svo færis að hlaupa út í skriðuna og grípa nokkra fugla  sitt í hvora hendi; hætti ég ekki fyrr, en ég hafði náð öllu. Annar maður, Brandur í Presthúsum, var þarna nokkuð frá og sá hvað gerðist. Taldi hann víst, að ég hefði orðið fyrir hrapinu, og þótti mesta mildi, hvernig ég slapp.

(Einar Finnbogason: Lausagöngur eftir fýl. Úr ritinu Vestur-Skaftafellssýsla og íbúar hennar, bls. 63.)  

Allt fram á fyrstu áratugi þessarar aldar tíðkaðist bjargsig eftir fugli, þá bæði eftir svokölluðum vetrarfýl og síðan eftir fýlsungum sem enn lágu á bæli í lok sumars. Bjargsig eftir fugli var oft á tíðum erfitt verk og mannfrekt. Algengt var að tína svartfuglsegg um leið og sigið var eftir fýlnum og enn þann dag í dag er sigið eftir eggjum, þá einkum í Reynisdröngum og í skerjunum fyrir utan Dyrhólaey. Veiðar á vetrarfýl voru síðan takmarkaðar að nokkru leyti af friðunarmönnum er þóttu sem gengið væri nær stofninum. 

Í dag veiða Mýrdælingar einungis fýlsunga í lok sumars, er oft miðað við lok 17. viku og stendur fýlaveiðtíminn í 1-2 vikur. Fýlsungarnir eru eltir uppi eftir að þeir koma af bæli, þeir rotaðir með barefli eða bitið er á gagnaugu. Fýllinn er reyttur, sviðinn og saltaður niður í tunnur og þykir herramannsmatur - allavega meðal innfæddra. Lyktin og ytra útlit matreiðslunnar þykir ekki lystaukandi fyrir þá sem smakka fýlinn í fyrsta skipti. 

Mýrdælingar hafa veitt lunda í háf  um margra ára skeið enda verpir lundinn í þúsundatali í Reynisfjalli og í Dyrhólaey. Áður en háfurinn kom til sögunnar var lundinn grafinn uppúr holum sínum. Þótti það seinlegt verk og erfitt sem gaf ekki sérstaklega vel.  En afköstin jukust stórlega við tilkomu háfsins en samkvæmt áðurnefndri frásögn Einars Finnbogasonar um fýlaveiði segir hann í upphafi greinar að Hallgrímur Eiríksson, bóndi í Görðum hafi fyrst flutt inn háf til lundaveiða árið 1876. Eitthvað er deilt um uppruna háfsins. Talið er að hann hafi verið fluttur inn frá Færeyjum til Vestmannaeyja á síðustu öld en þó var Vestmannaeyjaháfurinn frábrugðinn Mýrdalsháfnum þannig að óvist er hvaðan hann er uppruninn.

Skaftfellingur í Kaupmannahöfn

Útræði var stundað í Mýrdal allt fram á fjórða áratug þessarar aldar. Hér verður aðeins stiklað á stóru um útræði í Mýrdal, enda er hér um viðamikið viðfangsefni að ræða. Róið var út frá Dyrhólaey, Reynisfjöru, Pétursey og frá Maríuhliðinu útfrá Jökulsá á Sólheimasandi. Ef illa gaf í sjóinn og lítið hægt að róa út var oft sagt að aðbúnaður krepptist hjá Mýrdælingum þar sem hafið gaf oft vel í bú. En hafið gaf og hafið tók. Sökum hafnleysu og erfiðra lendingarskilyrða var atvinna þessi hættum búin og stopul mjög því oft gaf illa í sjóinn og stundum ekki hægt að róa út. Var þetta mannfrek atvinna því róið var yfirleitt á þungum sex- og áttæringum. Brimlendingar voru mjög hættulegar, þurfti mikinn mannskap til að lenda í slíkum skilyrðum. Oftar en ekki hlutust slys af. Síðasta slysið í brimlendingu var í Vík árið 1941 er 6 manns fórust og komst formaðurinn einn lífs af. Þá var mjög farið að draga úr sjósókn í Mýrdal, einkum vegna þess hve erfitt var að manna bátana og á næstu árum lagðist sjósókn alveg af í Mýrdal. Á næstu áratugum og fram á þennan dag hefur sjósókn verið lítil en þó hafa einstaka bændur freistað þess að sækja sjóinn á litlum bátum, að ógleymdum hjólabátunum, en að öðru leyti hefur sjósókn algjörlega legið niðri. 


Hamfarir og harðindi

Mýrdalurinn býr við nálægð jökuls og eldstöðva undir jökli, landbrot sjávar og jökulvatna og þeirri hættu sem skapast getur af ægivaldi slíkra náttúruafla. Ekki verður farið nákvæmlega út í þau harðindi sem vitað er um að gengið hafa yfir Mýrdælinga, heldur verður aðeins stiklað á því srærsta. 

Nálægðin við upptök Skaftárelda árið 1783 var Mýrdælingum ekki til hagsbóta, hvað þá öðrum landsmönnum. Híð gífurlega gjóskufall varð til þess að skepnufellir var mikill og grasbrestir gífurlegir þar sem eiturgufur og önnur óefni spilltu öllum forðaheimtum að svo geti kallast. Talið er að um 70% alls húsdýrabússtofns hafið fallið á þessari vargöld íslenskra hamfara og urðu ófarirnar alls fimmtungi þjóðarinnar að aldurtila.

Sú ógn sem stendur Mýrdælingum hvað næst í dag er Katla í Mýrdalsjökli, ein virkasta eldstöð landsins. Í gömlum munnmælum segir af fjölkunnugri kerlingu að nafni Katla og hefur henni verið eignuð umbrotin undir jökli. Svo segir í þjóðsögum Jóns Árnasonar:

Það bar við itthvört sinn á Þykkvabæjatklaustri eftir að það var orðið múnkasetur að ábóti sem þar bjó hélt þar matselju eina er Katla hét. Hún var forn í skapi, og átti hún brók þá sem hafði þá náttúru að hvör sem í hana fór þreyttist aldrei á hlaupum. Brúkaði Katla brók þessa í viðlögum. Stóð mörgum ótti af fjölkynngi hennar og skaplyndi og jafnvel ábóta sjálfum. Þar á staðnum var sauðamaður er Barði hét. Mátti hann oft líða harðar átölur af Kötlu ef nokkuð vantaði af fénu þegar hann samlaði. Eitt sinn um haust fór ábóti í veilsu og matselja með honum, og skyldi Barði hafa rekið heim allt féð er þau kæmu heim. Fann nú ei smalamaður féð sem skyldi. Tekur hann því það ráð að hann fer í brók Kötlu, hleypur síðan sem af tekur og finnur allt féð. Þegar Katla kemur heim verður hún brátt þess vís að Barði hefur tekið brók hennar. Tekur hún því Barða leynilega og kæfir hann í sýrukeri því er að fornum sið stóð í karldyrum og lætur hann þar liggja. Vissi enginn hvað af honum varð, en eftir sem leið á veturinn og sýran fór að þrotna í kerinu heyrði fólk þessi orð til hennar: ´´Senn bryddir  á Barða´´. En þá hún gat nærri að vonska hennar mundi upp komast og gjöld þau er við lágu. Tekur hún brók sína, hleypur út úr klaustrinu og stefnir norðvestur til jökulsins og steypir sér þar ofan í að menn héldu, því hún sást hvörgi framar. Brá þá svo við að rétt þar eftir kom hlaup úr jöklinum er helst stefndi á klaustrið og Álftaverið. Komst þá sá trúnaður  á að fjölkynngi hennar hefði valdið þessu. Var gjáin þaðan í frá nefnd Kötlugjá og plássið, sem þetta hlaup helst foreyddi, Kötlusandur.

(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands)

Kötlugoisð 1918Katla hefur oft spúið svörtu ryki í augu sveitunga sinna, hulið sól og skilið engi eftir svört af gjósku, allt frá því að byggð hófst í héraðinu. Þrátt fyrir að taka sinn toll hefur Katla aukið við landflæmi það sem nú er Mýrdalssandur. Nú á síðari árum hefur ágangur sjávar þótt ganga nærri byggð í Vík og því hafa heimamenn oft muldrað í barminn að nú veitti ekki af Kötlugosi til að fá meiri sand. Katla gaus síðast 1918 og er í fullu fjöri enn. Óvíst er hvenær hún lætur á sér kræla aftur.

Fylgifiskar gossins eru eldglæringar og jarðskjálftaklippir sem halda nágrönnum Kötlu við efnið, enda eru hér gríðarmikil átök í gangi og ógnarkraftar sem leysast úr læðingi er gosið brýtur sér leið í gegnum þykka íshelluna. Helsta hættan sem stafar af Kötlugosum er jökulhlaupið í kjölfar þess sem geysist niður Mýrdalssand en stöku sinnum hefur komið fyrir að hlaupið hefur fundið sér farveg niður Sólheimasand. Grífurlegt sjónarspil er að sjá mörg þúsund tonn af jöklís, sandi, gjósku og heilu björgunum sem veltast niður sandinn og hrífa með sér allt lauslegt og kvikt. Meðal annars tók Kötluhlaupið árið 1660 af kirkjuna og bæinn á Höfðabrekku ásamt allstóru landi en þá stóð bærinn töluvert neðar en seinna varð. Einnig tók af útræði í Skiphelli og við Víkurkletti en fyrir þetta hlaup féll sjór allt að Fagradalshömrum. 'i Kötluhlaupinu 1721 tók af bæinn við Hjörleifshöfða en þá stóð bærinn vestan undir Höfðandum. Er hlaupi ruddist yfir sandinn var bóndinn í HJörleifshöfða staddur í kirkju á Höfðabrekku en konan var heima með ungabarn og unglingspilt. Smalamaður, sem var unglingspiltur, var gengið út og sér þá hvar flóðið kemur öskrandi fram sandinn. Hann fer stax inn í bæ, varar húsfrúna við sem sat þar við lestur. Vildi hún engu sinni þar til smalamaður var þotinn út með vöggu ungbarnsins. Tekur hún í flýti smjör, einn fisk og eitthvað af rúmfötum og hraðar sér út Þau komast undan upp í helli er nefndur er Kálfaból og höfðust þar við meðan á flótinu stóð. Eftir þetta var bæjarstæðið flutt upp á Höfðann.

Er þar með talið að KAtla hafi eytt síðasta bænum á því svæði þar sem nú er Mýrdalssandur en ýmislegt bendir til þess að þar hafi verið byggð fyrr á öldum, m.a. ýmis örnefni í nágrenninu sögusögnum og munnmælum. 


Undanfari byggðar

Mýrdælingar hafa ekki farið varhluta ar ógnarvaldi náttúrunnar þar sem umhverfið tekur sinn toll, og því hóf hið litla samfélag í suðri að huga að mesta framfaraskrefi í sögu héraðsins - uppbyggingu verslunar og þjónustu í byggðarlaginu. 

 Sökum erfiðra samgangna reyndist torfært fyrir bændur að sækja sér bjargir annars staðar, sér í lagi þar sem verslunarstaðir í austri og vestri voru langt undan. Einkum sóttu Mýrdælingar verslun að Eyrabakka í austri og að Papósi í vestri og var því um langan veg að fara yfir óbrúuð vötn og eyðisanda. Þegar hart var í ári var enn erfiðara fyrir Mýrdælinga að leggja upp í slík ferðalög að oft reyndist þeim örðugt að sækja sér björg í bú. Það varð úr að raddir um nálægari verslunarstaði urðu æ háværari. 

Lítillega höfðu viðskipti farið fram á hafi úti og nokkuð var um að vörum væri skipað upp við Jökulsá á Sólheimasandi ,,við Maríuhliðið svokallaða,,. Er hér um að ræða fyrsta vísi að verslun í Mýrdal og óljósar eru heimildir um að verslun hafi farið fram í Dyrhólaey. 

Á árunum 1881-1887 geisuðu mikil harðindi á Íslandi og kom það einna verst við bændur í Vestur- Skaftafellssýslu. Kuldakast og með afbirgðum slæmt árferði árið 1881 átti eftir að hafa örlagaríkar afleiðingar fyrirþetta litla hérað. Grasbrestur var mikill, forðaheimtur brugðust þar eð engin spretta var á túnum sökum kulda, járfellir var mikill og klaki fók ekki úr jörðu. Hafísinn hjúfraði sig upp að landi, ísbirnir ráfuðu um bæi og gerðu mikinn usla og jökulfljótin börðust við að éta af ræktuðu landi austan Mýrdalssands. Landsmönnum fækaði í heild um 2,1% á árunum 1880-1890. Í Vestur- Skaftafellssýslu fækkaði fólk hvað mes, eðaum 11,75% þar af 5,6% fækkun í Mýrdal, 15,4% í sveitunum milli sanda og 24,1% í Meðallandi, eða um fjórðungur íbúa. Í nágrannalöndunum var safnað gjafakorni til handa sveltandi Íslendingum en ekki tókst að koma því svo búið til allra þurfandi þar sem fólk þurfti sjálft að sækja það á Eyrabakka eða út í Vestmannaeyjar. Brugðið var á það ráð að borga bændum út í peningum sem svaraði andvirði gjafakornsins.

Þrátt fyrir að sú ráðstöfun þætti hagkvæmari fyrir bændur í heild var enn illmögulegt að eyða fé því er þeim hafði áskotnast að gjöf. Uppfrá þessu spratt sú þróun og myndun verslunar og viðskipta en slíkt framfaraspor hafði mikil áhrif hafði á byggðarlagið í heild. 


Upphaf verslunar

Árið 1883 hófu þeir Víkurbændur, Halldór Jónsson, Suður-Vík og Þorsteinn Jónsson, Norður-Vík, að panta vörur frá Bretlandi og seldu þeir vörur sínar heima fyrir. Hjá þeim gátu fátækir bændurnir nýtt gjafafé það sem þeim áskotnaðist og er hér kominn fyrsti vísir að verslunarrekstri í Vík. Hér voru á ferðinni stórhuga bændur og miklir frumkvöðlar og átti þetta frumkvæði þeirra eftir að leiða af sér frekari byggðarmyndun í Vík. 

Um 1890 hlaut Halldór Jónsson, bóndi í Suður-Vík borgarabréf sem löggiltur kaupmaðurog varð það mikil bót þar sem menn höfðu áður þurft að fara alla leið til Eyrarbakka íHalldórsverslun verslunarferðir sem oft höfðu í för með sér tveggja til þryggja vikna útivist frá heimilum. Árið 1899 byrjar Halldórsvo að slátra í Vík sauðfé til útflutnings eða sölu í Reykjavík. Halldór var mikill framámaður og frumkvölðull og átti framkvæmdasemi hans og áræðni eftir að hafa mikil áhrif að byggð  od samfélag í Mýrdal á næstum áratugum. Árið 1903 fer Halldór út í miklar framkvæmdir en ásamt íbúðarhússbyggingu sinni reisir hann tveggja hæða verslunarhús undir ört vaxandi verslunarrekstur sinn sem í daglegu tali var nefnd Halldórsverslun og stendur hún enn. Ásamt verslunarrekstri sínum var Halldór með útræði á sínum snærum og var rekstur hans í heild stórtækur og margir menn er höfðu atvinnu við Halldórsverslun á einn eða annan hátt. VAr Haldórsverslun starfrækt allt til ársins 1959. ÞAð varð þá ekki fyrr en með tilkomu Brydesverslunar sem byggð tók að myndast.

Bryde kaupmaður hóf að senda vöruskip til Víkurog var það upphafið að viðskiptum ,,Brýðanna,, við Skaftfekkinga. Bryde lætur reisa selverslun á Víkursandi, Blánefsbúð, sem rekin var sem selverslun í nokkur ár.  Verslunin var aðeins opin nokkrar vikur fyrri part sumars en síðan þurfti að færa hana lengra uppá land er sjór gróf undan henni árið 1892. Á árinu 1895 lét Bryde kaupmaður taka niður gömlu Godthaabsverslunin í Vestmannaeyjum og flytja til Víkur. Þetta stóra verslunarhús hafði staðið í Vestmannaeyjum frá árinu 1831 og er því í dag næstelsta timburhús á Suðurlandi. Aðeins Húsið á Eyrarbakka er eldra. ÞAð hefur örugglega verið stórfengleg sjón þegar efniviðnum í Brydesverslun var skipað upp í Víkurfjöru enda ber það vott um mikla framtakssemi að taka niður sextíu ára gamalt hús og flytja það sjóleiðina áleiðis til Víkur, þar sem hafnleysa var í þokkabót. Verslun þessi var opin allt árið um kring sem þótti mikil bót frá fyrri verslunarháttum. Þegar hér er komið við sögu hafa risið upp tvær blómlegar verslanir en báðir aðilar höfðu nóg að starfa. 

Athyglisvert þykir það góða samstarf sem ríkti á milli keppinautanna, Brydesverslunar og Halldórsverslunar. Í frásögn Guðmundur Þorbjarnarsonar, þá bóndi á Hvoli í Mýrdal kemur fram að ekki hafi verið eingöngu háð samkeppni þeirra á milli, heldur hafi ríkt góð samvinna á ýmsum sviðum. Riðu þeir gjarnan til hrossakaupa, Halldór í Suður-Vík og faktor Brydesverslunar. Á selverslunarárunum fengu starfsmenn Brydes fæði frá Suður-Vík, úr eldhúsi Halldórs kaupmanns og stórbónda ,,nóg af silung, eggjum og öðru góðgæti,, svo ekki hefur verið illa útilátinn maturinn ofan í keppinautana. Einnig tók Halldór að sér að selja vörur fyrir Bryde sem óseldar voru á hausti.

Báðir aðilar hafa séð hag að góðri samvinnu enda var vinskapurinn ætíð mikill milli Halldórs og starfsmanna Brydes á þessum árum, enda sveitin lítil og fámenn.  


Byggðaþróun, atvinna og félagsmál

Byggð tók að myndast í kringum hina nýju atvinnuvegi, verslun, upp- og útskipun ásamt útræði frá Vík. Árið 1896 flutti  flyst fyrsti Mýrdælingurinn á mölina en það var EInar Hjaltason frá Stóru-Heiði og kona hans Ingibjörg Sigurðardóttir og bjuggu þau þar frá 1896til 1913. Uppfrá því tók að fjölga í Víkinni jafnt og þétt og árið 1905 eru íbúar taldir 80 og heimilin þrettán.

Flestir landnemar Víkur voru bændur úr nágrenninu og fluttu þeir gjarnan hluta af bústofni sínum með. MArgir áttusauðfé og fékk það beitiland í landi Víkurjarða. Í þá daga tíðkaðist að næstum heimili í Vík hefði sína eigin kú til mjólkurgjafar og voru gripahús byggð á milli íbúðarhúsanna. Kunnugir segja að mest hafi verið um 17 kýr sem hafi verið reknar úr þorpinu að morgni og til baka að kveldi á sumrin. Hefur þetta óneitanlega sett sinn svip á mannlífið í Vík og kom stundum upp togstreita á milli manna ef blessaður kýrnar  gerðu þarfir sínar úti á almannafæri sem þótti vart snyrtilegt. 

Einhverju sinni var Sæmundur Bjarnason í Vík, á gangi ásamt kú sinni og lá leiðin framhjá Þorsteinsbúð, áður Brydesverslun en þar stóð Gísli Sveinsson, sýslumaður Vestur- Skaftfellinga (síðar forseti alþingis) fyrir utan sem fyrr. Tóku þeir tal saman en aðalumræðuefnið var þrætubókarrökræður um uppruna mykjuhaugs nokkurs þar í næsta nágrenni sem einhver kýrin hafði látið frá sér fara í mestu sakleysi. Hvorugum tókst að sanna sekt hins því ekki þóttu sönnunargögn nægjanlega örugg þar sem hver kúamykjan var annari lík. 

(Munnleg heimild: Runólfur Sæmundsson, Vík) 

Í kjölfar umræðna um aukna menntun í héraðinu var álit manna að gefa enn meiri gaum að menntun æskunnar. Þótti sem bændur væru tregir til að láta börn sín til frekari mennta og ýtti það  fremur við framámönnum að sýna fram endurbætur í skólamálum. Formlegt skólahald hefst í Vík og að Vatnskarðshólum árið 1901en tveimur árum síðar var skólahúsið á Vatnsskarðshólum flutt að Litla-Hvammi. Tók það skólahús m.a. við hlutverki Loftsalahellis sem þingstaður bænda. Áður höfðu farandkennarar ferðast á milli bæja og má þar nefna Eyjólf Guðmundsson, bónda og fræðimann, Guðmund Þorbjarnarson og Jón Ólafsson, síðar kennara við Barna- og Unglingaskólann í Vík. Deildarárskóli tók til starfa árið 1904 og árið 1906 var Reynisskóli byggður á Eyrinni skammt frá Reyniskirkju en skólahúsið varð eldi að bráð árið 1954. Báðir voru þessir skólar sameinaðir í eitt skólahverfi árið 1921 en um 1959 fluttist öll kennsla þaðan flutt að Litla-Hvammsskóla, Nýtt skólahús reis á Ketilsstöðum 1968 og tók við því hlutverk. 

Vík á fyrri hluta 20. aldar

Höfundur texta: Sigrún Lilja Einarsdóttir 

 

Heimildir:

Árbók Ferðafélag Íslands, 1975.

Dynskógar - héraðsrit Vestur-Skaftfellinga, 4. bindi. Prentstofa G. Benediktssonar, Reykjavík 1988.

Dynskógar - héraðsrit Vestur-Skaftfellinga, 5. bindi. Prentstofa G. Benediktssonar, Reykjavík 1990.

Einar Finnbogason: ,,Lausagöngur eftir fýl,,. Úr ritinu Vestur- Skaftfellssýsla og íbúar hennar. Björn O. Björnsson tók saman og bjó til prentunar. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík 1930.

Kjartan Ólafsson: Verslunarsaga Vestur-Skaftfellinga, fyrra bindi. Prentstofa G. Benediktssonar, Reykjavík 1987.

Lúðvík Kristjánsson: Íslenskir Sjávarhættir, V. bindi. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík 1986.

Sigrún Lilja Einarsdóttir:,,Draugagangur í Hjörleifshöfða og á Mýrdalssandi,,. Námsritgerð í mannfræði við Háskóla Íslands, vormisseri 1995.

Sigrún Lilja Einarsdóttir: ,,Brydesverslun í Vík,,. Lesbók Morgunblaðsins 16. og 23. janúar 1999. 

Sunnlenskar Byggðir - Skaftárþing, VI. bindi. Búnaðarsamband Suðurlands, 1985.