Viljayfirlýsing um fjölgun íbúða í Vík undirrituð

F.v. Einar Freyr Elínarson sveitarstjóri Mýrdalshrepps, Elmar Erlendsson sviðsstjóri hjá HMS og fram…
F.v. Einar Freyr Elínarson sveitarstjóri Mýrdalshrepps, Elmar Erlendsson sviðsstjóri hjá HMS og framkvæmdastjóri Brákar íbúðafélags og Marinó Þórisson framkvæmdastjóri SV3 ehf.

Einar Freyr Elínarson sveitarstjóri Mýrdalshrepps undirritaði í dag, fyrir hönd sveitarfélagsins, viljayfirlýsingu um fjölgun íbúða í Vík.

Verkefnið felst í byggingu 16-20 íbúða fjölbýlishúss þar sem Brák leigufélag mun kaupa á bilinu 10-12 íbúðir með stofnframlögum frá ríki og sveitarfélagi.

Yfirlýsingin er undirrituð af fulltrúum Mýrdalshrepps, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) og byggingaraðilans SV3 ehf., en ákveðið var að ganga til samninga við fyrirtækið í kjölfar þess að auglýst var eftir áhugasömum byggingaraðilum í desember sl.

Verkefnið er unnið á grundvelli samnings sem sveitarfélagið og innviðaráðuneytið samþykktu í nóvember 2023 um íbúðauppbyggingu til næstu 10 ára og er í samræmi við húsnæðisáætlun sveitarfélagsins.

Vonir standa til þess að framkvæmdir geti hafist um mitt ár 2024 og að þeim verði lokið um mitt ár 2025.