Víkurskóli og Katla jarðvangur hlutu menntaverðlaun Suðurlands 2023

Guðni Th. Jóhannesson forseti íslands afhenti Elínu Einarsdóttur skólastjóra Víkurskóla og Jóhannesi…
Guðni Th. Jóhannesson forseti íslands afhenti Elínu Einarsdóttur skólastjóra Víkurskóla og Jóhannesi M. Jóhannessyni menntaverðlaun Suðurlands 2023

Menntaverðlaun Suðurlands voru afhent í sextánda sinn fimmtudaginn 15. febrúar sl. á árlegum hátíðarfundi Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands. Athöfnin fór fram í sal Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Alls bárust tíu tilnefningar til Menntaverðlaunanna fyrir árið 2023.

Að þessu sinni var það Víkurskóli og Katla jarðvangur sem hlutu verðlaunin fyrir samstarfsverkefni í strandlínurannsóknum í Víkurfjöru.

Samstarfsverkefni Víkurskóla og Kötlu jarðvangs hófst árið 2021 um er að ræða strandlínurannsókn í Víkurfjöru. Verkefnið hefur verið samstarfsverkefni Jóhannesar Marteins Jóhannessonar jarðfræðings hjá Kötlu jarðvangi og nemenda Víkurskóla.

Framkvæmdar hafa verið mælingar á nokkrum sniðum Víkurfjöru og Jóhannes hefur komið með fræðslu til nemenda þar sem niðurstöður mælinganna hafa verið útskýrðar. Verkefnið eflir þekkingu nemenda á nærumhverfi sínu og vísindalegri rannsóknaraðferð. Nemendur fá fræðslu um þá þætti sem hafa áhrif á færslu strandlínunnar s.s. veður, hafstrauma og vindáttir. Fræðslan á nærumhverfi Víkur er enn fremur mjög þýðingarmikil í ljósi lýðfræðilegra breytinga sem hafa orðið á samfélaginu í Mýrdalshreppi síðustu árin.

Var það Brynhildur Jónsdóttir stjórnarkona SASS sem tilkynnti niðurstöður úthlutunarnefndar. Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin.

Sveitarfélagið óskar Víkurskóla og Kötlu jarðvangi til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu fyrir frábært samstarfsverkefni.