Velkomin til Víkur, höfðingleg gjöf.

Í mörg ár hefur fallegt tréskilti eftir Jón Gunnar Jónsson með bláum grunni og svörtum dröngum, boðið gesti Víkur velkomna. Í einu óveðrinu í vetur fauk það af stalli sínum og brotnaði þannig að ekki var hægt að gera við það. Kamil og Kasia Zachariasz ungir listamenn sem koma frá Pólandi og hafa búið hér s.l. 3 ár komu færandi hendi með nýtt skilti og vildu gefa sveitarfélaginu sem þau hafa kolfallið fyrir og segjast hvergi annarstaðar vilja búa, nýtt skilti. Skiltið er unnið úr við sem þau eru að endurnýta úr sínu nánasta umhverfi. Frá því að þau fluttu til Víkur hafa þau verið að þróa aðferðina sem þau nota við framleiðsluna og eru að búa til m.a. samskonar lítil skilti sem þau hafa verið að selja hjá Holly í Skoolbeans undir merkinu K&K woodart. Myndin er tekin þegar Þorbjörg Gísladóttir sveitarstjóri tók formlega við gjöfinni. Kamil og Kasia kærar þakkir.