Sjávarflóð og landrof hafa lengi ógnað byggðinni í Vík. Svæði þar sem reistir hafa verið sandfangarar eru hins vegar varin og þar mælist ekkert landbrot. Ógnin hefur orðið æ augljósari þeim sem þekkja til og nú er svo komið að þjóðvegi 1 stafar veruleg ógn af sjávarflóðum og landrofi. Vegagerðin hefur ekki fengist til þess að viðurkenna þessa ógn til þessa, en í tilkynningu á vefsíðu stofnunarinnar frá því í ágúst sl. var því orðrétt haldið fram að hringvegurinn fram hjá Vík væri ekki í hættu að mati Vegagerðarinnar.
Vegagerðin birtir á vefsíðu sinni í dag tilkynningu um sjóvarnir í Vík þar sem því er haldið fram að undirritaður fari með rangt mál um sjóvarnir.
Orðalag sjóvarnarlaga er skýrt um að verja beri byggð svæði. Eins og myndir af sjávarflóði síðustu viku taka allan vafa af um, þá ógna sjávarflóð byggðu svæði við Smiðjuveg í Vík og þjóðvegi 1 austan Víkur.
Þau mannvirki sem reist hafa verið í Vík eiga sér öll stað á deili- og aðalskipulagi og hafa hlotið skipulagslega meðferð samkvæmt þar að lútandi lögum. Vegagerðin vísar til skilgreiningar á varnarlínum sem sveitarfélagið fær ekki séð að finnist nokkur stoð í lögum fyrir.
Sveitarfélagið er áfram um að eiga í samstarfi við ríkið um sjóvarnir til þess að tryggja mannvirki, innviði sveitarfélagsins og þjóðhagslega mikilvæga innviði sem þjóðvegur 1 er. Skilgreining varnarlína er eðlilegur hluti af slíku samstarfi, enda fær sveitarfélagið ekki séð að slík lína hafi lagalegt gildi án skipulagslegrar meðferðar í samstarfi við sveitarfélagið.
Það er hins vegar ljóst, af margra ára samtölum sveitarfélagsins við Vegagerðina og viðbrögðum stofnunarinnar við sjávarflóðum síðastliðinnar viku, að fá þarf skorið úr frjálslegri túlkun stofnunarinnar á lögum um sjóvarnir.
Sveitarfélagið mun því senda kvörtun til Umboðsmanns Alþingis vegna túlkunar stofnunarinnar á framangreindum lögum. Túlkunar sem hefur orðið til þess að stofnunin hefur hafnað því að ráðast í nauðsynlegar aðgerðir. Afstaða stofnunarinnar, sem á að vera löggjafanum og innviðaráðuneyti til ráðgjafar um málefni sem undir hana heyra, hefur jafnframt dregið úr trúverðugleika málstaðar sveitarfélagsins og gert líkur þess að nauðsynleg verkefni fái fjármagn að engu.
Mikilvægi þess að brugðist sé afgerandi við ætti engum að dyljast. Sveitarfélagið mun áfram vinna að því að brugðist verði við með nauðsynlegum lausnum sem tryggja öryggi svæðisins til framtíðar.
Einar Freyr Elínarson
Sveitarstjóri Mýrdalshrepps