Tilkynning um endurskoðun menntastefnu 2023

Tilkynning um endurskoðun menntastefnu 2023

Á 646. fundi sveitarstjórnar þann 15. febrúar 2023 var staðfest tillaga fjölskyldu-, frístunda- og menningarráðs (FFMR) frá 5. fundi hennar þann 9. febrúar 2023 að ganga til samninga við Ásgarð ráðgjöf um endurskoðun og gerð menntastefnu Mýrdalshrepps en núverandi stefna er frá árinu 2010.

Verkefnið er fólgið í því að greina núverandi stöðu á gildandi menntastefnu, móta nýja stefnu og skýra framtíðarsýn með skýrum viðmiðum um gæði skólastarfs. Samhliða endurskoðun verður gerð þriggja ára innleiðingaráætlun og verkefnum forgangsraðað.

Rík áhersla er lögð á víðtækt samráð við starfsfólk, nemendur, foreldra og aðra íbúa sveitarfélagsins við endurskoðun menntastefnunnar enda er það grundvöllur þess að sem mest sátt ríki um stefnuna og fólk hafi tækifæri til að leggja sitt af mörkum.

Sveitarstjórn hefur skipað stýrihóp til þess að halda utan um verkefnið undir verkstjórn ráðgjafa Ásgarðs. Stýrihópinn skipa:

●  Þorgerður Hlín Gísladóttir, formaður FFMR
●  Þórey Richardt Úlfarsdóttir, varaformaður FFMR
●  Björn Þór Ólafsson, oddviti sveitarstjórnar
●  Elín Einarsdóttir, skólastjóri Víkurskóla
●  Bergný Ösp Sigurðardóttir, leikskólastjóri Mánalands
●  Kristín Ómarsdóttir, æskulýðs- og tómstundafulltrúi

Markmiðið er að ný menntastefna verði tilbúin í júní 2023.

Stýrihópur mun á næstu vikum boða til ýmiss konar funda m.a. íbúafundar til þess að kalla eftir hugmyndum, markmiðum og leiðum og eiga samtal og samráð um menntamál í Mýrdalshreppi og þannig viða að sér efni til mótunar metnaðarfullrar framtíðarsýnar í nýrri menntastefnu.

Frekari upplýsingar um verkefnið veitir Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson ráðgjafi í Ásgarði með netfangið gunnthor@ais.is eða í síma 699-1303.

Með von um gott samstarf og góða þátttöku
Stýrihópur um endurskoðun menntastefnu Mýrdalshrepps