Skriða úr Reynisfjalli vestan við byggðina í Vík

Skriða féll  aðfararnótt 6. desember s.l. sunnan við Króktorfuhaus sem er skammt vestan við byggðina í Vík í Mýrdal. Upptök skriðunnar voru efst í bjargbrúninni þar sem lítil bergspilda losnaði frá klettunum. Hrun úr snarbröttum klettabrúnum Reynisfjalls eru fremur algengir atburðir og þar ber helst að nefna skriðuna 1998 sem féll úr Króktorfuhaus og yfir skógrækt í hlíðinni. Árið 1932 féll mun stærri skriða eða berghlaup sem náði niður á flatann neðan við klettana. Skriðan í nótt féll við syðri jaðar skriðunnar frá 1932 og stöðvaðist í brattanum ofan við trjálundinn. Stærstu steinarnir eru nokkur tonn og brotnuðu nokkur tré. Mögulega getur meira efni fallið úr klettunum á næstunni en skriðuhætta á þessu svæði er ekki talin ógna byggð.