Mýrdalshreppur verður Heilsueflandi samfélag

Undanfarna mánuði hefur verið unnið að því að undirbúa þátttöku Mýrdalshrepps í verkefninu Heilsueflandi samfélag. Heilsueflandi samfélag er heildræn nálgun sem Embætti landlæknis vinnur að í samstarfi og samráði við sveitarfélög, opinberar stofnanir, frjáls félagasamtök o.fl.

Í Heilsueflandi samfélagi er heilsa og líðan allra íbúa í fyrirrúmi í allri stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum og allir geirar hafa hlutverk. Unnið er með áhrifaþætti heilbrigðis og vellíðanar s.s. félags-, efnahags- og menningarlegar aðstæður, manngert og náttúrulegt umhverfi til að skapa sem ákjósanlegastar aðstæður í lífi, leik og starfi fyrir fólk á öllum æviskeiðum. Holla valið þarf að vera eins auðvelt og kostur er s.s. að hreyfa sig, borða hollt, rækta geðið og ástunda grænan lífsstíl á sama tíma og spornað er gegn áhættuhegðun s.s. neyslu tóbaks, áfengis og annarra vímuefna. Stuðningur við starf Heilsueflandi leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla er mikilvægur liður í starfi Heilsueflandi samfélags. Verkefnastjóri fyrir hönd Mýrdalshrepps er Einar Freyr Einarsson oddviti og með honum í stýrihóp eru Helga Þorbergsdóttir hjúkrunarfræðingur, Sunna Wiium íþróttafræðingur og Ívar Páll Bjartmarsson slökkviliðsstjóri. Skrifað verðu undir samninginn um verkefnið föstudaginn 8. október nk. klukkan 15:00 í Íþróttamiðstöðinni. Hvetjum íbúa til að mæta, klifurveggurinn verður vígður við sama tilefni.