Líf og fjör á leikjanámskeiði

Leikjanámskeið hefur verið hluti af sumarstarfi sem boðið er upp á fyrir börn í sveitarfélaginu síðastliðin tvö ár. Leikjanámskeið þessa árs fór fram í júní og sóttu 24 börn námskeiðið. Leikjanámskeiðið stóð yfir í þrjár vikur og þar fór fram fjölbreytt dagskrá. Farið var í ratleik, vatnsblöðrustríð, bingó, yoga, föndur og fleiri fjölbreytta leiki innan- og utandyra. Einnig var bakað og útieldunaraðstaðan í Syngjanda var nýtt til þess að grilla pylsur svo eitthvað sé nefnt. Það var ýmislegt í boði innan leikjanámskeiðsins fyrir þátttakendur. Hestamannafélagið Sindri var með reiðnámskeið og Ungmennafélagið Katla bauð upp á sundnámskeið, boltafjör og leikjafjör fyrir öll börn sem skráð voru á námskeiðið.

Einn daginn eftir hádegi var haldið í leiðangur með nesti. Labbað var að Öxarfótalæk, þar var mikið fjör. Börnin óðu kát og glöð í læknum. Sumir skemmtu sér svo vel að varla gafst tími til þess að borða nestið. Eftir að nestið hafði verið borðað var sullað aðeins meira í læknum, svo var haldið heim á leið.

Börnunum gafst færi á að prófa allskonar nýjungar. Þar má til dæmis nefna Slackline sem er jafnvægislína, strekkt á milli tveggja staura. Síðan er gengið eftir henni og reynt að halda jafnvægi. Einnig var farið í fótbolta þar sem stór blaðra var notuð í stað bolta sem var mikið fjör.

Heilt yfir gekk leikjanámskeiðið vel fyrir sig. Umsjónarmenn námskeiðsins að þessu sinni voru þau Guðrún Lilja Kristófersdóttir, Hörður Már Kristinsson og Urður Ósk Árnadóttir.