Flyglinum hefur verið komið fyrir í Tónskóla Mýrdalshrepps, Sunnubraut 7

Flygill okkar Mýrdælinga

Árið 2007 þann 26. desember, varð Anna Björnsdóttir sextug. Hana langaði að gera eitthvað frumlegt eða merkilegt varðandi tónlistarlíf í Vík og þá kviknaði hugmyndin um flygilkaup fyrir Mýrdælinga. Anna kom að máli við þáverandi sveitarstjóra, Svein Pálsson, og leist honum vel á hugmyndina. Var þá hafist handa við undirbúning; stofnuð var flygilnefnd sem átti að sjá um framkvæmd og fjáröflun vegna flygilkaupanna en í henni voru: Helga Viðarsdóttir Kristín Ragnarsdóttir og Anna Björnsdóttir. Send var auglýsing í helstu miðla um afmælið og fyrihugaða fjáröflun. Anna baðst undan gjöfum vegna afmælisins en benti þess í stað á nýstofnaðan flygilsjóð. Skemmst er frá því að segja að á nokkrum mánuðum söfnuðust u.þ.b. kr. 500.000. Nefndin nýtti alls konar aðferðir við söfnunina m.a. var farið um allan Mýrdalinn og bankað upp á hjá fyrirtækjum, stórum sem smáum, fyrirtæki í Vík voru heimsótt og falast eftir vinningum til að hafa á bingói sem svo var haldið í Leikskálum. Alls staðar var erindinu vel tekið og voru vinningarnir af ýmsu tagi, gistingar, út að borða, kjötlæri, grænmeti, útreiðartúrar, útsýnisflug og margt fleira, þar með taldar peningagjafir. Eitt haustið var nefndin með bás á Regnbogahátíðinni og þar gafst fólki kostur á að styrkja sjóðinn með mánaðarlegu framlagi í einhvern tiltekinn tíma, allt að eigin vali. Verkefnið kallaðist „að taka flygilinn í fóstur“. Þarna safnaðist töluvert t.d. voru burtfluttir Mýrdælingar rausnarlegir. Ýmis fyrirtæki og félagasamtök styrktu sjóðinn myndarlega, burtséð frá þessum herferðum stallsystranna í nefndinni. Einnig barst vegleg upphæð til minningar um horfinn ástvin og svo mætti lengi telja.

Söfnunin tók lengri tíma en gert var ráð fyrir og hækkaði verð flygilsins umtalsvert á þeim tíma, meira en upphaflega var reiknað með eða um tvær og hálfa milljón. Nú voru góð ráð dýr. Flygilnefndin sendi bréf til Sveitarstjórnar og fór fram á að sveitarsjóður fjármagnaði það sem á vantaði en þá voru liðin 8 ár frá stofnun sjóðsins. Var þessu erindi vel tekið og með því tókst að festa kaup á flygli árið 2015. Þegar flygillinn var kominn varð hann hálfgert olnbogabarn, þar sem húsnæðismál voru í nokkrum ólestri, því svona hljóðfæri þurfa hálfgerða ungbarna umönnun. Nefnin leitaði til Elíasar Guðmundssonar hótelstjóra með beiðni um að flyglinum yrði komið fyrir á Icelandair hótelinu. Elías tók erindinu vel og „fóstraði“ hljóðfærið í 8 ár og styrkti, auk þess, kaupin með myndarlegri peningagjöf.

Og nú er komið að tímamótum. Flyglinum hefur verið komið fyrir í Tónskóla Mýrdalshrepps, Sunnubraut 7, Vík. Þar sómir hann sér vel og verður nýttur til kennslu og tónleikahalds um ókomin ár, öllum Mýrdælingum til ómældrar gleði og ánægju.

Elíasi Guðmundssyni skulu hér, færðar sérstakar þakkir fyrir að hafa séð um flygilinn.

Flygillinn var vígður, með stórtónleikum, á Icelandair hótelinu 9. október 2015.