Fjárhagsáætlun 2024-2027

Sveitarstjórn Mýrdalshrepps samþykkti á 658. fundi sínum fjárhagsáætlun 2024-2027 við síðari umræðu.

Íbúum Mýrdalshrepps hefur fjölgað um rúm 10% á árinu 2023. Útsvarstekjur sveitarfélagsins hafa því vaxið samhliða íbúafjölgun og fjárhagur sveitarfélagsins stendur styrkum fótum. Mikil uppbygging íbúðarhúsnæðis er yfirstandandi og frekari uppbygging fyrirhuguð á nýju skipulagssvæði í austurhluta bæjarins samhliða áframhaldandi uppbyggingu í Túnahverfi. Skipulagsvinnu til þess að tryggja framboð af verslunar- og þjónustulóðum hefur verið hrundið af stað og standa vonir til að hægt verði að auglýsa slíkar lóðir á næsta ári. Nokkur eftirspurn var um síðustu verslunar- og þjónustulóð sem sveitarfélagið úthlutaði en mikilvægt er að huga að því að uppbygging íbúðarhúsnæðis nái að halda í við uppbyggingu nýrrar verslunar og þjónustu.

Lokið verður við byggingu nýs leikskóla í Vík á árinu 2024 og stefnt er að því að ljúka frágangi leikskólalóðar á sumarmánuðum. Aðrar framkvæmdir sem fjárhagsáætlun 2024-2027 gerir ráð fyrir eru:

2024

  • Nýr leikskóli og leikskólalóð
  • Útsýnispallur í Reynisfjalli
  • Gatna-, gangstétta- og stígagerð
  • Viðgerð á ytra byrði Leikskála
  • Hönnun nýrrar slökkvistöðvar
  • Stofnframlög vegna byggingu leiguíbúða

2025

  • Ný líkamsrækt
  • Fráveituframkvæmdir
  • Gatna-, gangstétta- og stígagerð

2026

  • Ný slökkvistöð
  • Gatna-, gangstétta- og stígagerð

2027

  • Viðbygging við Víkurskóla
  • Gatna-, gangstétta- og stígagerð

 

Niðurstöður sameiginlegs útboðs sem Skaftárhreppur og Mýrdalshreppur réðust í fyrr á árinu 2023 munu hafa þau áhrif að kostnaður við sorphirðu mun hækka umtalsvert. Sorphirðugjöld munu þurfa að standa undir raunkostnaði en fyrir liggur að það kann að taka tíma að ná jafnvægi og fá reynslu af nýju kerfi, sér í lagi því sem snýr að innheimtu á gámasvæði sveitarfélagsins.

Fjárhagsleg staða Mýrdalshrepps er góð og sveitarfélagið í góðri stöðu til að ráðast í innviðafjárfestingar. Mikilvægt er þó að horft verði til þess við áætlanagerð til lengri tíma að þjónustuþyngd íbúa í sveitarfélaginu kann að aukast mjög miðað við það sem nú er eftir því sem börnum fjölgar í skóla og þjónustustig hækkar. Launakostnaður og annar rekstrarkostnaður við að halda úti þjónustu getur þannig hækkað mjög og dregið úr svigrúmi til fjárfestingar.

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar 2024:

  • Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta er jákvæð um 134 m.kr.
  • Skuldahlutfall verður 72,1% í lok árs 2024
  • Veltufé frá rekstri verður 234,5 milljónir
  • Áætlaðar fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum nema 760 m.kr.
  • Útsvarsprósenta er óbreytt frá því sem verið hefur, 14,74%
  • Álagning fasteignagjalda verður óbreytt frá fyrra ári
  • Almennt var miðað við 5,5% hækkun á öðrum gjaldskrám í A-hluta

Heildartekjur ársins 2024 eru áætlaðar 1.371 m.kr. og heildargjöld 1.111 m.kr. Fjármagnskostnaður er áætlaður 46,5 m.kr. og handbært fé í árslok 60,3 m.kr.

Talsverðar hreyfingar hafa verið í starfsmannahópi sveitarfélagsins á yfirstandandi ári. Umfang starfseminnar hjá ráðhúsi sveitarfélagsins er orðið slíkt að óumflýjanlegt er að horfa til þess að hægt verði að bæta við starfsfólki. Samþykkt hefur verið að taka á leigu aðstöðu fyrir ráðhús í nýju húsi sem mun rísa á Smiðjuvegi 7. Starfsaðstaðan mun þannig batna og gefa svigrúm til þess að ráða inn nýtt starfsfólk og bæta þannig þjónustu sveitarfélagsins.

Sveitarfélagið lauk við endurskoðun nýrrar menntastefnu á yfirstandandi ári. Stefnan markar skýra sýn fyrir skólastarf í sveitarfélaginu en mikilvægt er að stjórnendur og Fjölskyldu-, frístunda- og menningarráð fylgi eftir innleiðingu stefnunnar á næstu árum. Fjárhagsáætlun næsta árs gerir ráð fyrir því að ráðist verði í þarfagreiningu fyrir húsnæði Víkurskóla. Ljóst er að með áframhaldandi íbúafjölgun og fjölgun barna í skóla mun þurfa að stækka skólann. Í ljósi umfangs verkefnisins er fýsilegt að hefja undirbúning þess tímanlega ef skipta þarf framkvæmdinni upp í áfanga.

Ráðist var í skipulagsbreytingar í íþróttamiðstöð sveitarfélagsins fyrr á árinu. Endurbætur eru hafnar í sundlaug og íþróttamiðstöð en ljóst er að búnaður og aðstaða er að mörgu leyti orðin úreld. Stefnt er að opnun tímabundinnar stækkunar á líkamsræktaraðstöðu og endurnýjun tækjabúnaðar fyrir líkamsræktina og í sundlauginni.

Umfang eldvarnareftirlits hefur vaxið mjög á síðustu árum samhliða uppbyggingu sem hefur átt sér stað í sveitarfélaginu. Slökkviliðsstjóri var ráðinn í fullt starf á árinu 2023 til þess að ná betur utan um starfsemi slökkviliðs og eldvarnareftirlits. Fjárhagsáætlun 2024 gerir ráð fyrir því að ný slökkviliðsstöð verði hönnuð og þriggja ára áætlun gerir ráð fyrir að hún verði byggð á árinu 2026.

Ríkið hefur unnið að frumathugun vegna byggingar nýs hjúkrunarheimilis í Vík. Sveitarfélagið ákvað við skipulagsvinnu á Sléttuvegi að gera ráð fyrir að hægt verði að byggja nýtt hjúkrunarheimili á lóð þar eftir að frumathugun benti til þess að lóð á Ránarbraut sé of lítil fyrir nýtt heimili. Sveitarfélagið hefur lagt til við ríkið að kannaðir verði möguleikarnir á því að fá einkaaðila að byggingu og rekstri nýs heimilis. Ríkið hefur unnið að breytingum á því fyrirkomulagi sem hefur verið unnið eftir við byggingu hjúkrunarheimila þar sem gert er ráð fyrir að ríki og sveitarfélög fjármagni þær í sameiningu og að opnað verði á aðkomu einkaaðila.

Fjárhagsáætlun 2024-2027 gerir ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu innviða og skipulagningu nýrra hverfa til þess að svara eftirspurn eftir lóðum. Stefnt er að eflingu stofnana þannig að hægt verði að tryggja góða þjónustu sveitarfélagsins við íbúa. 


Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps