Enskumælandi ráð hefur störf í Vík

Enskumælandi ráðið kom fyrst saman í gær í Leikskálum í Vík í Mýrdal.
Enskumælandi ráðið kom fyrst saman í gær í Leikskálum í Vík í Mýrdal.

22. september var fyrsti fundur ensku­mælandi ráðs í Vík í Mýr­dal. For­maður ráðsins segir að nú sé kominn vett­vangur fyrir er­lenda íbúa sveitar­fé­lagsins til að koma sínum sjónar­miðum og hug­myndum á­fram, en um 50 prósent íbúa á svæðinu eru af er­lendu bergi brotin.

„Fyrir kosningarnar í ár var mikið rætt um að út­lendingar í sam­fé­laginu væru smá út­skúfaðir úr pólitíkinni hérna í Vík. Þannig að við lögðum til að ensku­mælandi ráð væri stofnað fyrir okkur til þess að koma meira að sam­fé­laginu og í dag var fyrsti fundurinn haldinn,“ segir Tomasz Chocholowicz, for­maður nefndarinnar.

Tomasz segir að í nefndinni sitji fólk af mörgum ó­líkum þjóð­ernum. Hann er sjálfur Pól­verji, en í ráðinu er meðal annars fólk frá Spáni, Þýska­landi, Slóvakíu og Filipps­eyjum.

„Núna líður okkur ekki eins og við séum út­skúfuð úr sam­fé­laginu okkar. Það mætti segja að þessi nefnd sé brú á milli er­lendra og inn­lendra íbúa í Vík,“ segir Tomasz.

„Ég er í skýjunum með þennan fund,“ segir Einar Freyr Elínar­son, sveitar­stjóri Mýr­dals­hrepps og starfs­maður ráðsins. „Það sem ensku­mælandi ráðið gerir, það gefur þessum stóra hóp íbúa í sveitar­fé­laginu, sem eru er­lendir í­búar, vett­vang til þess að taka þátt í stjórn­sýslunni og móta sam­fé­lagið. Mér fannst mikil­vægt að þessi hópur fengi rödd og fengi meira um hlutina að segja, sem er mjög eðli­leg krafa og hollt fyrir okkur ef við ætlum að hafa sjálf­bært sam­fé­lag hérna á Vík. Þá þýðir ekki að einn hópur sé hálf af­skiptur,“ segir Einar.

Hann segir að til­lögur um nýja líkams­ræktar­stöð og mögu­leikann að fá er­lendan lækni á svæðið hafi verið rætt á fundinum.

„Þetta er ó­trú­lega flottur vett­vangur fyrir hug­myndir sem hjálpa sam­fé­laginu okkar. Ég er gríðar­lega á­nægður með fundinn í morgun og ég held að það hafi verið al­menn á­nægja hjá öllum sem sátu þennan fund,“ segir Einar.

 

Grein frá Fréttablaðinu. 

www.frettabladid.is/frettir/enskumaelandi-rad-hefur-storf-i-vik/