Samningur um nýjan leikskóla undirritaður

Baldur Pálsson framkvæmdastjóri SG Húsa og Einar Freyr Elínarson sveitarstjóri Mýrdalshrepps takast …
Baldur Pálsson framkvæmdastjóri SG Húsa og Einar Freyr Elínarson sveitarstjóri Mýrdalshrepps takast í hendur við undirritun verksamnings. Með á myndinni er Tómas Ellert Tómasson byggingarverkfræðingur SG Húsa.

Einar Freyr Elínarson sveitarstjóri Mýrdalshrepps og Baldur Pálsson framkvæmdastjóri SG húsa undirrituðu í dag verksamning um byggingu nýs leikskóla í Vík.

Verkið var boðið út í desember sl. og buðu SG Hús lægst í verkið, samtals 409 milljónir kr. Útboðið miðaði að því að skila verkinu á byggingarstigi 3 - tilbúið til innréttingar.

SG Hús buðu jafnframt í viðbótarverkþætti sem miða að því að skila byggingunni frágenginni m.v. byggingarstig 4. Sveitarstjórn samþykkti á fundi 18. janúar sl. að taka tilboði SG Húsa með viðbótarverkþáttum. Heildartilboðsverð er því 475 milljónir kr.

Bygging nýs leikskóla í Vík er stærsta einstaka framkvæmd sem sveitarfélagið hefur ráðist í síðan nýtt íþróttahús var byggt fyrir um 20 árum. Framkvæmdin markar upphafið að umfangsmikilli uppbyggingu sem er liður í því að geta þjónustað vaxandi samfélag. Nýr leikskóli er hannaður fyrir allt að 60 börn og gerir hönnunin ráð fyrir því að hægt sé að stækka hann í framhaldinu. Upphaflega gerði hönnun skólans ráð fyrir því að hann yrði staðsteyptur en ákveðið var sl. haust að bjóða hann aftur út miðað við að hann yrði smíðaður úr verksmiðjuframleiddum einingum.