Miðvikudaginn 22. október verður skipt um spenni í aðveitustöð Rarik í Vík í Mýrdal. Eldri spennir verður fjarlægður og stærri spennir settur í hans stað en þegar hafa farið fram nokkrar endurbætur á aðveitustöðinni. Aðgerðin er liður í að auka afl á svæðinu og styrkja dreifikerfi Rarik. Stækkunin kemur til með að auka tiltækt afl frá aðveitustöðunni úr 6,3 MW í 10 MW.
Vegna spennaskiptanna verður rafmagn framleitt með varaaflsvélum fyrir svæðið frá kl. 8:00-20:00 á miðvikudaginn. Ekki ætti því að koma til rafmagnstruflana hjá viðskiptavinum okkar af þessum sökum. Við viljum þó minna á að keyrsla varaafls er viðkvæm fyrir álagi og biðlum til viðskiptavina okkar á svæðinu að fara sparlega með rafmagn meðan á varaaflskeyrslunni stendur.
Sama dag mun Rarik nýta tækifærið til að tengja nýjan streng undir Kaldaklifsá. Eftir tíð rafmagnsleysi vegna skemmda á jarðstrengjum í árfarvegum á svæðinu síðasta vetur var farið í þá aðgerð að bora og setja rör fyrir strengi undir fimm árfarvegi sem Víkurstrengur hafði verið plægður ofan í. Þetta er samskonar aðgerð og þegar rör var sett undir Skógá í desember 2024 eftir að strengurinn fór þar í sundur. Þegar hafa verið tengdir tveir strengir af þessum fimm, annar undir Holtsá og hinn undir Laugará, og verður strengurinn undir Kaldaklifsá sá þriðji í röðinni. Eftir á að tengja strengi undir Svaðbælisá og Írá. Þessar tengingar ættu að auka afhendingaröryggi í Vík og í Mýrdal verulega.
Með góðri samstöðu ætti keyrsla varaafls að ganga vel og ekki að hafa mikil áhrif á íbúa og gesti sveitarfélagsins.