Pistill Sóttvarnalæknis - Staða Covid-19 á Íslandi.

Mikil útbreiðsla hefur verið á Covid-19 hér á landi undanfarið en þrátt fyrir það var öllum opinberum sóttvarnaaðgerðum aflétt innanlands og á landamærum þ. 25. febrúar sl. Samhliða þessum breytingum, var sýntaökum vegna Covid-19 breytt og er nú almennt boðið upp á hraðgreiningapróf í stað PCR prófa til greiningar á sjúkdómnum.

Í kjölfarið á öllum þessum breytingum þá fækkaði heildarfjölda tekinna sýna og þar með einnig daglegum fjölda greindra smita. Þetta þýðir hins vegar ekki að smitum í samfélaginu hafi fækkað og á þessari stundu er ekki ljóst hvenær hámarki faraldurins verður náð.

Í daga hafa um 130 þúsund manns greinst hér á landi með Covid-19 frá upphafi faraldursins. Áætlað hefur verið að fjöldi þeirra sem hefur smitast en ekki greinst, sé um tvöfalt meiri og því er hugsanlegt að um 70% landsmanna hafi nú þegar smitast af Covid-19. Því er ekki óvarlegt að ætla að hámarki faraldursins verði náð innan tveggja til þriggja vikna og í framhaldi af því fari nýgreiningum að fækka.

Álag á heilbrigðiskerfið og ýmsar stofnanir eins og hjúkrunarheimili hefur verið mikið undanfarið vegna útbreiddra veikinda. Á Landspítala leggjast nú inn um 10 einstaklingar daglega með eða vegna Covid-19 en heldur færri útskrifast. Í dag liggja inn á spítalanum 55 manns með/vegna sjúkdómsins og þar af þrír á gjörgæsludeild, allir á öndunarvél. Á Sjúkrahúsinu á Akureyri eru nú sjö inniliggjandi með eða vegna Covid-19 og þar af er einn á gjörgæsludeild og þarf sá á aðstoð öndunarvélar að halda. Þannig er Covid-19 ennþá að valda alvarlegum veikindum þó þau séu hlutfallslega fátíðari en í fyrri bylgjum faraldursins.

Útbreidd veikindi meðal starfsfólks heilbrigðisstofnana eru einnig að valda verulegri röskun á starfsemi þeirra og af þeim sökum hefur Landspítali nú verið settur á neyðarstig.

Mikilvægt er að allir geri sér grein fyrir að Covid-19 er á þessum tímapunkti enn stórt heilbrigðisvandamál á Íslandi þrátt fyrir að opinberum sóttvarnaráðstöfunum í samfélaginu hafi verið aflétt. Því eru allir hvattir til að viðhafa áfram einstaklingsbundnar sóttvarnir sem miða að því að tefja útbreiðslu Covid-19 og þar með koma í veg fyrir óviðráðanlegt álag á heilbrigðiskerfi okkar. Andlitsgrímur gegna enn mikilvægu hlutverki í einstaklingsbundnum sóttvörnum en notkun þeirra er nú valkvæð.