Breytt leiðarkerfi tekur gildi 1. janúar 2026. Nýtt kerfi leysir af eldra leiðarkerfi sem ekki hefur verið uppfært í takt við breytingar í þjóðfélaginu. Meginmarkmið landsbyggðarstrætós er að tengja saman byggðakjarna og sveitarfélög. Leitast hefur verið við að tengja ferðir landsbyggðarvagna við innanbæjarkerfi almeningssamgagna sveitarfélaga. Breytingarnar hafa verið unnar í samráði við hagaðila og mun samráðið halda áfram eftir að nýja leiðarkerfið hefur tekið gildi á meðan reynsla er að komast á það.
- Núverandi leiðakerfi landsbyggðarvagna er 13 ára gamalt og hefur ekki verið uppfært í takt við uppbyggingu þéttbýliskjarna síðustu ára, sem og þær breytingar sem hafa orðið á íbúa- og byggðamynstri.
- Nýja leiðakerfið sem tekur gildi um áramótin byggir á núverandi kerfi og því um að ræða endurhönnun á eldra leiðakerfinu. Markmiðið með breytingunum er að þróa heildarmynd leiðakerfisins á landsbyggðinni, að þjónusta við vinnu- og skólasóknarsvæða verði sem best, og að þjónusta á milli landshluta sé samræmd.
- Hlutverk landsbyggðarvagna er að framfylgja stefnu stjórnvalda í almenningssamgöngum. Meðal atriða í þeirri stefnu er að tengja saman ferðamáta á láði, lofti og legi. Einnig að landsbyggðarvagnar sinni akstri milli byggðarlaga, en almenningssamgöngur innan einstakra sveitarfélaga eru á þeirra forræði.
- Ein af áherslunum í endurhönnun leiðakerfisins er að tengja landsbyggðarvagna við innanbæjarkerfi þar sem þau eru til staðar. Það er hluti af því að styrkja tengingar vinnu- og skólasóknarsvæði þvert á sveitarfélög.
- Allar breytingar sem gerðar eru á leiðakerfinu eru byggðar á og gerðar í samráði við hagaðila. Til að fylgja breytingunum eftir, og verkefninu í heild, er fyrirhugað að Vegagerðin haldi frekari samráðsfundi með hagaðilum þegar líður á nýjan samning til að ræða áhrif breytinganna.
- Allar upplýsingar um breytt leiðakerfi er að finna á heimasíðu Strætó bs., straeto.is
- Sjá einnig frétt á heimasíðu Vegagerðarinnar: https://www.vegagerdin.is/vegagerdin/starfsemi/frettir/breytingar-a-leidakerfi-landsbyggdarvagna
Nánari upplýsingar veita
Hilmar Stefánsson, forstöðumaður almenningssamgagnadeildar, s.861-9499
G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi s. 865-3163