Fjárhagsáætlun samþykkt í sveitarstjórn

Hér má nálgast: Fjárhagsáætlun Mýrdalshrepps fyrir árin 2023-2026 og greinargerð með áætluninni.

Mýrdalshreppur bjó við viðvarandi óvissu um fjárhag sveitarfélagsins eftir að heimsfaraldur kórónaveiru breiddist út. Óþarfi er að fjölyrða um áhrif faraldursins á atvinnulíf í sveitarfélaginu sem lagðist nær alfarið í dvala svo mánuðum skipti árin 2020-2021. Viðspyrna ferðaþjónustu eftir að samkomutakmörkunum var aflétt hefur verið mjög ör. Fjöldi ferðamanna hefur sótt Ísland heim og ferðaþjónusta í sveitarfélaginu blómstrað á árinu 2022. Aukin umsvif skila auknum tekjum í formi útsvars til sveitarfélagsins og því er fjárhagsstaða þess í lok árs 2022 mjög góð.

Fyrirhugaðar eru umfangsmiklar framkvæmdir og fjárfestingar í fjárhagsáætlun 2023-2026. Stærstu verkefni eru:

2023
▪ Nýr leikskóli
▪ Ný líkamsrækt
▪ Útsýnispallur í Reynisfjalli
▪ Gatna-, gangstétta- og stígagerð
▪ Viðgerð á ytra byrði Leikskála
▪ Ný varmadæla fyrir sundlaug
2024
▪ Ný slökkvistöð og áhaldahús
▪ Frágangur leikskóla
2025
▪ Nýtt hjúkrunarheimili
▪ Fjárfesting í fráveitulausnum
2026
▪ Viðbygging við Víkurskóla

 

Fyrirhuguð er stefnumótunarvinna í umhverfismálum hjá sveitarfélaginu árið 2023. Niðurstaða þeirrar vinnu kann að kalla á fjárfestingar í innviðum vegna breytinga á fyrirkomulagi sorphirðu. Forsendur til að meta umfang þeirrar fjárfestingar liggja ekki fyrir fyrr að undangenginni stefnumótun.
Fjárhagsleg staða Mýrdalshrepps er góð og sveitarfélagið í góðri stöðu til að ráðast í innviðafjárfestingar. Mikilvægt er þó að horft verði til þess við áætlanagerð til lengri tíma að þjónustuþyngd íbúa í sveitarfélaginu kann að aukast mjög miðað við það sem nú er eftir því sem börnum fjölgar í skóla og þjónustustig hækkar. Launakostnaður og annar rekstrarkostnaður við að halda úti þjónustu getur þannig hækkað mjög og dregið úr svigrúmi til fjárfestingar.

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar 2023:

• Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta er jákvæð um 162,8 m.kr.
• Skuldahlutfall verður 90,4% í lok árs 2023
• Veltufé frá rekstri verður 243,7 milljónir (23,3%)
• Áætlaðar fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum nema 723 m.kr.
• Útsvarsprósenta er óbreytt frá því sem verið hefur, 14,48%
• Álagning fasteignagjalda breytist þannig að álagning í A-flokki (íbúðarhúsnæði) lækkar úr 0,39% í
0,33%. Álagning í B- og C-flokki er óbreytt
• Almennt var miðað við 5,5% hækkun á öðrum gjaldskrám í A-hluta

Heildartekjur ársins 2023 eru áætlaðar 1.062 m.kr. og heildargjöld 788 m.kr. Fjármagnskostnaður er áætlaður 46,6 m.kr. og handbært fé í árslok 84,6 m.kr.
Þrátt fyrir að heimsfaraldur kórónaveiru hafi lamað að miklu leyti þjónustu á almennum markaði þá tókst að halda úti mest allri þjónustu sveitarfélagsins nær óslitið. Sérstaklega ber að þakka það góða starf sem, starfsfólk skóla og hjúkrunarheimils gat haldið uppi og varið þannig viðkvæma hópa. Mýrdalshreppur býr að öflugum mannauði sem sýnt hefur tryggð við sinn vinnustað á krefjandi tímum og mikilvægt er að horft verði til þess að tækifæri verði til starfsþróunar um leið og leitað verði leiða til þess að laða til starfa hæft starfsfólk í nýjar stöður.

Íbúum Mýrdalshrepps hefur fjölgað ört síðastliðin tíu ár með tilheyrandi þrýstingi á íbúðamarkað og þróunin hefur gjörbreytt fjárhag sveitarfélagsins. Það er stefna sveitarstjórnar að búa þannig um innviðafjárfestingar að áframhald verði á fjölgun nýrra íbúa og að sveitarfélagið haldi áfram að eflast. Til að svo megi verða er mikilvægt að huga sérstaklega að framboði þjónustulóða svo ný atvinnutækifæri geti laðað að fleiri íbúa. Fjárhagsáætlun 2023 gerir ráð fyrir deiliskipulagningu nýrra svæða, t.d. við Sléttuveg fyrir þjónustulóðir og austan Sléttuvegar fyrir ný íbúðahverfi og þjónustulóðir.

Mýrdalshreppur er fjölmenningarsamfélag með hæsta hlutfall erlendra íbúa sem þekkist á Íslandi. Í þeirri viðleitni að efla samfélagslega þátttöku allra íbúa sveitarfélagsins hefur verið komið á fót enskumælandi ráði. Tilgangurinn er að veita erlendum íbúum sem ekki hafa íslensku að móðurmáli tækifæri til þess að hafa áhrif á nærsamfélag sitt með formlegum hætti. Stjórnkerfi sveitarfélagsins tók talsverðum breytingum í kjölfar kosninga vorið 2022 þegar nefndir sem starfandi höfðu verið voru aflagðar og sameinaðar í tvær stærri nefndir með víðara starfssvið; Skipulags- og umhverfisráð og Fjölskyldu-, frístunda- og menningarráð. Ætlunin er að koma í veg fyrir að ákveðnir málaflokkar verði munaðarlausir innan stjórnsýslunnar vegna óvirks nefndastarfs.

Ef vel tekst til í skipulögðu átaki um uppbyggingu innviða sem tryggja góða þjónustu við íbúa og laða að fleiri nýja, er það skoðun undirritaðs að Mýrdalshreppur muni áfram vaxa og verða eftirsóttur staður fyrir ferðamenn að heimsækja og fólk almennt til að festa hér rætur. Fjárhagsáætlun sem hér er lögð fram endurspeglar svo ekki verður um villst að stefnt er að framangreindu með markvissum og ábyrgum hætti.

 

14. desember 2022
Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps