Góð afkoma Mýrdalshrepps

Nú hefur heimurinn velkst í válegu róti á annað ár. Viðvarandi óvissa hefur verið um komu ferðamanna frá því í febrúar 2020. Fyrir sveitarfélag sem byggir afkomu sína að mestu leyti á ferðavilja er það flókin vinna að áætla tekjustrauma mánuði fram í tímann, hvað þá ár. Því er skynsamlegra að gera ráð fyrir minni tekjum en meiri. Útgönguspá fyrir árið 2021 gefur til kynna mun betri afkomu sveitarfélagsins en gert var ráð fyrir á fjárhagsáætlun 2021. Áhrif faraldursins á atvinnulíf hafa dvínað eftir því sem liðið hefur á árið og störfum fjölgað samhliða því. Rómuð náttúra Mýrdalshrepps og einstakt framboð af afþreyingu, gististöðum og veitingastöðum á stóran þátt í því hve hratt lífið er að færast í fyrra horf.

Hönnun á nýjum 685 fm² leikskóla mun ljúka í desember, gert er ráð fyrir að fara í útboð á framkvæmdum strax á nýju ári. Leikskólinn mun rúma 60 börn en er gert ráð fyrir að auðvelt verði að stækka hann í framtíðinni. Vel er vandað til verka við hönnun og horft til framtíðar. Lögð er áhersla á góða hljóðvist, viðhaldslitla byggingu og rúmt leiksvæði, sem og er lögð sérstök áhersla á aðstöðu fyrir starfsmenn og utanaðkomandi sérfræðinga. Gert er ráð fyrir verulegri stækkun á leikskólalóð sem verður vel búin af leiktækjum og leiksvæðum, m.a. gert ráð fyrir sérstöku leiksvæði fyrir yngstu börnin. Við hönnun á leikskólalóð er sérstaklega horft til þess að skapa skjólgott svæði. Áætlaður kostnaður við bygginguna e r 513.7 m. kr. og við lóð 60 m. kr.

Í byrjun næsta árs er einnig gert ráð fyrir að nýtt deiliskipulag líti dagsins ljós í Túnahverfi og Myllulandi, gert er ráð fyrir að í fyrsta áfanga verði úthlutað 9 lóðum við Króktún og einni við Hátún. Samhliða úthlutun lóða verður lagt slitlag, lýsing og fráveita frágengin. Er þetta í fyrsta skipti sem íbúðahverfi í Vík er deiliskipulagt í heild áður en lóðum er úthlutað og gatnagerð lokið samhliða úthlutun lóða. Í heildina er gert ráð fyrir að bygging hefjist á a.m.k. 38 íbúðum í Vík á næsta ári, um er að ræða einbýli, parhús, raðhús og fjölbýli.

Megin áhersla verður á gatnagerð í framkvæmdum næsta árs og byggingu nýs leikskóla.

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar 2022

  • Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta er jákvæð um 84,7 m.kr.
  • Skuldahlutfall verði 111.0 % í árslok 2022.
  • Áætlað veltufé frá rekstri A- og B-hluta er 162.8 m.kr.
  • Veltufjárhlutfall 0,68 við árslok.
  • Útsvarsprósenta óbreytt  14,48%.
  • Álagning fasteignagjalda er óbreytt frá í fyrra en afsláttur til eldri borgara og lífeyrisþega hækkar í takt við launavísitölu.
  • Almennt er gert ráð fyrir að gjaldskrá A hluta fyrir árið 2022 hækki um 2,5 %.
  • Áætlaðar fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum nema 654 m.kr.

Heildarútgjöld eru áætluð 759.6 m. kr. og launakostnaður er áætlaður um 442.7 m. kr., gert er ráð fyrir 39.3 m.kr. í fjáramagnskostnað. Heilt yfir er rekstur sveitarfélagsins í góðu jafnvægi og sveitarfélagið í vel í stakk búið til að takast á við þá stóru fjárfestingu sem bygging nýs leikskóla er. Mikil umskipti hafa orðið í tekjustraumum sveitarfélagsins á síðustu árum því gefast nú tækifæri til að vinna á uppsafnaðri viðhaldsþörf eftir mörg mögur ár. Markvisst hefur verið að endurbótum á eignum sveitarfélagsins á undanförnum árum og verður því haldið áfram á árinu 2022.

Mikið álag hefur verið á starfsfólki sveitarfélagsins frá upphafi faraldursins, verður þeim seint fullþakkað hversu vel það hefur staðið vörð um stofnanir sveitarfélagsins og á þá þjónustu sem þær veita. Takk kærlega fyrir ykkar framlag.

Mýrdalshreppur er ört stækkandi sveitarfélag og náði 800 íbúa markinu nú á haustmánuðum. Sveitarfélagið hefur þá sérstöðu að meira en helmingur íbúa er af erlendu bergi brotin. Þessari samsetningu fylgja bæði áskoranir og tækifæri. Við þurfum að skapa grundvöll til að komast yfir þá hindrun sem ólík tungumál geta verið. Í ólíkum hóp fólks leynast ólíkir hæfileikar og fjölbreytt menntun sem okkar litla samfélag þarf á að halda. Til byggja upp öflugt og framsækið sveitarfélag þurfum við allar hendur á dekk.

Kæru búar nú erum við að kveðja árið 2021 og taka á móti nýju ári, vonandi full eftirvæntingar og þakklát fyrir það sem við höfum, lífið er allskonar á ólíkum tímum.

Að lokum vil ég óska ykkur gleðilegra jóla og gæfu á nýju ári megi árið 2022 verða ár félagslífs og jákvæðra samskipta án takmarkana.

Þorbjörg Gísladóttir, sveitarstjóri

(Nánar má lesa um fjárhagsáætlun sveitarfélagsins undir fundargerðir á vef sveitarfélagsins.)