Syngjandi

Syngjandi er svæði fyrir neðan túnið í Norður-Vík, ekki langt frá gömlu rafstöðinni í Víkurgili. Þessi fallega skógivaxna vin er útivistarsvæði Mýrdælinga. Þar er m.a frisbígolfvöllur og útikennslusvæði.

Á leið inn í Syngjandann má kynna sér sögu rafvæðingar í Vík sem er býsna merkileg. Virkjunin nýtir um 2,8 m fall í Víkurá, virkjað rennsli er um 420 l/s og uppsett afl um 8 kW. 

Virkjun var fyrst byggð árið 1913 og var hún endurgerð tvisvar meðan hún var í rekstri til ársins 1959. Virkjunin sem til stendur að endurgera var endurræst fyrir um 20 árum og nýtt til lýsingar á svæðinu í nokkur ár þar til bilun varð í vélbúnaði. Víkurá er stífluð með steyptri stíflu og yfirfalli og vatni veitt að yfirbyggðri inntaksþró. Þaðan er vatni veitt um 20 m langa þrýstipípu að litlu steyptu stöðvarhúsi sem hýsir kaplan hverfil og rafbúnað virkjunarinnar. Frá stöðvarhúsi rennur vatnið eftir um 100 m löngu frárennslisskurði aftur til Víkurár rétt ofan við Þjóðveginn. 

Á Syngjanda hefur verið byggt upp útikennslusvæði fyrir grunn- og leikskólabörn. Staðurinn er umkringdur trjám sem mynda skjól. Það er einstaklega fallegt leik- og náttúrusvæði sem nýtist nemendum í leik og starfi og hefur notið mikillar vinsælda. Svæðið er sérstaklega hannað með það í huga að þar geti farið fram útikennsla fyrir börn. Á svæðinu er garðhús og bekkir. Þar er einnig eldstæði þar sem nemendur setið við varðeld og steikt pylsur, bakað brauð eða grillað sykurpúða. Á Syngjanda er líka svifdiska golfvöllur. Náttúran ræður þar ríkjum og hefur sterka tengingu við gamla þjóðsögu, sjá hér fyrir neðan. 

Sagt er að þar hafi verið bænhús eða hálfkirkja fyrr á öldum og sér ennþá móta lítillega fyrir rústunum ef vel er að gáð. Löngum var það trú manna, og var sú sögn á lofti, að þar voru álfar oft á ferð og álfakirkja þar sem þeir áttu að hafa komið saman. Á Jónsmessunótt dönsuðu þeir á flötinni og á jólakvöld gengur þeir í skrúðgöngu til mess í kirkju. (S. L. Einarsdóttir. Kyngimögnuð náttúra - Þjóðsögur og sagnir - Mýrdalshreppur - Land og Saga, 2005)