Fyrri mynd
Næsta mynd
Ok
Velkomin á vef Mırdalshrepps. Viğ notum vefkökur (e. cookies) til şess ağ bæta upplifun şína og greina umferğ um síğuna.
Meğ şví ağ nota vefsíğuna samşykkir şú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Opna
Facebook
Instagram
Sjórnsısl
Stjórnsısla
Mannlíf
Mannlíf
Şjónusta
Şjónusta
EN
PL
Mırdalshreppur
Open Menu Close Menu
 
Til baka
EN     PL
Şjónustuver
Opiğ frá kl. 10:00-12:00 og 13:00-15:00 alla virka daga
Sími 487 1210

Fréttir

Kveðja frá sveitarstjóra

Kæru Mýrdælingar

Nú líður senn að lokum þessa undarlega árs 2020. Hjá flestum tók lífið U beygju í upphafi þess og fátt fór eins og ætlað var. Heimsbyggðin fékk það stóra verkefni að breyta algjörlega hegðun sinni og fyrirætlunum, sem að mörgu leiti var eins og að nauðhemla flutningaskipi á fullri ferð.

Vinsælasta sjónvarpsefnið varð framan af, daglegar útsendingar frá upplýsingafundi sóttvarnarteymisins okkar, sem hefur leitt okkur í gegnum þennan ólgusjó. Stjórnvöld eru að takast á við stærra verkefni en nokkur tíma áður á friðartímum og mjög margir atvinnurekendur hafa neyðst til að skella í lás og segja starfmönnum sínum upp.

Hjá of mörgum hefur faraldurinn höggvið skarð í fjölskyldur og haft langvarandi áhrif á heilsu þeirra og annarra. Fyrir aðra hefur faraldurinn þýtt leiðindi, einangrun og mögulega atvinnuleysi, það er hins vegar tímabundið ástand sem við munum komast í gegnum. Það hefur vakið athygli mína að ein er sú stétt sem ólíkt mörgum öðrum, hefur ekki barmað sér í fjölmiðlum undan því álagi sem fylgir Covid og þrátt fyrir að hluti þeirra hafi verið samningslaus á tímanum, það eru heilbrigðisstarfmenn. Að mínu viti hafa þeir nálgast verkefnið af fórnfýsi og einhug sem við fáum seint fullþakkað. Takk kærlega heilbrigðisstarfsmenn.

Fyrstu spár gerðu ráð fyrir samdrætti í útsvarstekjum sveitarfélagsins allt að 30% á árinu 2020, nú lítur hins vegar út fyrir að samdrátturinn verði um 13%. Það sem mildar höggið fyrir sveitarsjóð er sú staðreynd að flestir sem misstu vinnuna eiga rétt á atvinnuleysistryggingu. Sveitarsjóður er nokkuð vel í stakk búinn til að takast á við þennan samdrátt til skemmri tíma. Við búum svo vel að á Íslandi er almanntryggingakerfi sem grípur okkur þegar tímabundnir erfiðleikar sækja að. Það hefur svo sannarlega komið sér vel í því ástandi sem nú ríkir, það er auðvelt að ímynda sér hvar við værum stödd ef þess nyti ekki við og nauðsynlegt að vera þess minnug að það eru ekki allar þjóðir svo vel settar. Þegar skóinn kreppir að er mikilvægt að koma auga á það góða og það sem vel er gert. Það eru mörg atriðið sem leiða til þess að okkur getur almennt liðið vel.

Atvinnurekendur í Mýrdalshreppi og starfsmenn þeirra hafa svo sannarlega ekki farið varhluta af þeim efnahagslegu þrengingum sem faraldurinn hefur haft í för með sér. Hæst fór atvinnuleysi í apríl í 46% sem er eftir því sem ég best veit er landsmet á seinni tímum, heldur hefur dregið úr og síðust tölur gefa til kynna að u.þ.b. þriðjungur íbúa sveitarfélagsins sé nú atvinnulaus.

Gjaldþrot í ferðaþjónustu eru færri en óttast var fyrr á árinu en aftur á móti eru skuldir orðnar miklar. Að mati forystumanna í Samtökum ferðaþjónustunnar má gera ráð fyrir því að það muni taka rekstraraðila í ferðaþjónustu þrjú til fjögur ár að ná sér að fullu. Margir hafa þrátt fyrir allt notað tímann til að endurskipuleggja reksturinn og laga það sem betur mátti fara. Mögulega eru bæði sveitarfélagið og rekstraraðilar að þessu leiti betur undirbúnir en áður til að taka á móti öllum þeim ferðamönnum sem hingað munu streyma á komandi árum.

Ævintýraþorpið Vík hefur sannarlega náð að stimpla sig inn í hugum landsmanna, sumarið var okkur gott í mörgum skilningi. Veðrið lék við sunnlendinga og landsmenn voru duglegir að heimsækja Mýrdalinn til að njóta alls sem hann hefur uppá á bjóða. Að auki var Vegagerðin með tvö stór verkefni í sveitarfélaginu sem heimamenn sáu um framkvæmd á, hefur nú Víkin fengið allt annað og betra yfirbragð.

Nú þegar hillir undir bóluefni við upphaf næsta árs, ætla ég að leyfa mér að vera bjartsýn á að lífið færist smátt og smátt í fyrra horf. Fyrsta umræða um fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2021 fór fram í sveitarstjórn þann 19. nóvember sl. Áætlunin einkennist af baráttuanda og hóflegri bjartsýni. Í henni er gert ráð fyrir að með vorinu verði landið farið að rísa og að í sumar verði hjól atvinnulífsins komin á góðan snúning.

Til að koma til móts við íbúa sveitarfélagsins á tímum atvinnuleysis og í ljósi þess að fasteignamat hefur hækkað talsvert, samþykkti sveitarstjórn að lækka álagningarhlutfall fasteignagjalda úr 0,48% í 0,39%, ekki er gert ráð fyrir að þetta muni lækka krónutölu tekna af fasteignagjöldum. Að auki var ákveðið að gjaldskrár sveitarfélagsins yrðu óbreyttar á árinu 2021 fyrir utan sorphirðugjald og rotþróargjald sem hækka til samræmis við neysluverðsvísitölu.

Þessar umbætur til handa íbúum koma til viðbótar við það að á síðasta ári var greiðslufrestur fasteignagjalda lengdur úr sex mánuðum í níu og aflsáttur til lífeyrisþega hækkaður umtalsvert.

Farið var í allar framkvæmdir sem voru á fjárhagsáætlun síðasta árs a.ö.l. en því að í stað þess að malbika Kirkjuveg 1-5 og Austurveg 19-27 var skipt út malbiki á fremsta hluta Víkurbrautar sem var orðin mjög illa farin. Almennum rekstrarkostnaði hefur verið haldið niðri eins og kostur er. Sveitarfélagið bar rúmlega 20 milljóna króna kostnað vegna framkvæmda Vegagerðarinnar við Austurveg sem felst í 8% af kostnaði við hringtorg auk kostnaði vegna nýrra gangstétta.

Markvisst verður áfram unnið að innviða uppbyggingu á árinu 2021 eins og síðastliðin ár. Gert er ráð fyrir að áfram verði unnið að endurbótum á fasteignum sveitarfélagsins, af nægu er að taka þar.

Malbikunarframkvæmdir við Kirkjuveg 1-5 og Austurveg 19-27 eru aftur á dagskrá og lögð verður gangstétt við Sunnubraut 14-18. Klárað verður að endurýja gangstéttir við Víkurbraut að brú, veituframkvæmdum þar er lokið að sinni en ný vatnslögn verður lögð frá vatnsbólinu niður í austurhluta byggðar til að tryggja enn betur afhendingaröryggi vatns þar.

Gamli flóðvarnargarðurinn austan við iðnaðarhverfið verður færður í austur og iðnaðarhverfið stækkað. Mikil eftirspurn hefur verið eftir iðnaðarlóðum síðustu misseri, þessi framkvæmd ásamt því að rafmagnslínur verða lagðar jörð gefa okkur tækifæri til að mæta þeirri eftirspurn á nýju ári.

Stefnt er á að klárað verði að setja lýsingu á vesturhluta Mánabrautar og Sunnubrautar.

Skipt verður um brú yfir Víkurá við Strandveg, göngustígar við hana endurbættir og sett lýsing á svæðið. Undirbúningur fyrir þessa framkvæmd er þegar hafinn, ég veit að það eru margir sem bíða spenntir eftir þessum endurbótum.

Áfram verður haldið að byggja upp leiksvæði fyrir unga fólkið okkar, strax í vor verður hafist handa við að setja upp aparólu sem vafalaust verður mikið notuð. Við fengum fjölda góðar hugmyndir frá Ungmennaráði Mýrdalshrepps og ætlum okkur að nýta þær á þessu ári og næsta.

Þetta ásamt mörgu öðru er á stefnuskrá sveitarstjórnar en rúsínan í pylsuendanum er að sjálfsögðu áætlanir um byggingu nýs 60 barna leikskóla. Sveitarstjórn áætlar að setja 350 miljónir í þetta verkefni sem verður fjármagnað með lántöku. Aðstæður eru sérstaklega hagstæðar til þess að fara í þessar framkvæmdir núna. Vextir hafa aldrei verið lægri og átakið Allir vinna, verður til þess að virðisauki af vinnu við verkefnið fæst endurgreiddur. Þetta vegur þungt en ekki síður sú staðreynd að við viljum byggja upp gott fjölskylduvænt samfélag hér í Mýrdal sem leggur áherslu á góða og barnvæna þjónustu. Með því að byggja undir starfsemi leikskólans opnast tækifæri til að stækka grunnskólann og laga aðstæður tónskólans. Stækkun grunnskólans opnar á möguleika til að leggja meiri áherslu á skapandi greinar eins og handverk og heimilisfræði. Með þessu erum við líka að hlúa að okkar góða starfsfólki sem hefur aldeilis sýnt og sannað á þessu ári, úr hverju það er gert. Markmiðið er að gera menntastofnanir sveitarfélagsins að eftirsóttum vinnustöðum þar sem starfsmannavelta er hæfileg og fagmennskan verður áfram hornsteinn starfseminnar.

Það eru mörg önnur framfara verkefni í farvatninu. Sveitarfélagið fékk styrk frá ríkinu til að veita viðspyrnu í efnahagslegum samdrætti. Þau verkefni sem ákveðið var að fara í eru komin á fulla ferð. Þrettán milljónir eru settar í endurbyggingu Halldórsverslunar sem við bindum miklar vonir við að eigi eftir að verða vel nýtt menningarhús í framtíðinni. Verkefnið hefur nú hlotið styrki að uppæð 22 milljónir króna, sem gefur okkur gott start og framkvæmdir eru hafnar.

Aðrar þrettán milljónir eru settar í endurbygginu gömlu rafstöðvarinnar við Víkurá. Stefnt er á að húsið og rafstöðin verði endurbætt, byggðir verði útsýnispallar við húsið með upplýsingaskiltum um sögu rafstöðvarinnar, sem er býsna merkileg. Rafmagn frá rafstöðinni verðu svo nýtt til að lýsa upp fossinn sem fellur fram af lóninu og svæðið í kring. Samhliða þessu er Mýrdalshreppur að láta vinna deiliskipulag fyrir Syngjanda svæðið í þeim tilgangi að skipleggja þar útivistarsvæði. Vinna við hönnun á endurbættri virkjun er hafin, stefnt er að því að verkefninu ljúki í apríl 2021.

Fimm milljónir fara í að hanna og útbúa söguslóð sem mun liggja eftir ströndinni og um bæinn. Á kaflanum sem liggur um ströndina verða byggð tvö sérhönnuð sorpskýli sem falla vel að landslaginu og á allri leiðinni verða skilti sem segja sögu af viðburðum og sögulegum staðreyndum af svæðinu. Þetta er gert meðal annars til að draga úr akandi umferð um bæinn og til að auka upplifun ferðamanna af verunni í Vík

Ein milljón er síðan áætluð til að styðja við menningarstarf.

Jafnt og þétt er unnið að því að deiliskipuleggja sveitarfélagið og stefnt er að því að vinna við aðalskipulag ljúki á árinu 2021.

Af þessu má sjá að Mýrdalshreppur ætlar að ná vopnum sínum á nýju ári og hefur fulla trú á að hjól efnahagslífsins muni fara að snúast á nýju ári.

Að lokum vil ég fyrir hönd sveitarstjórnar óska Mýrdælingum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Þorbjörg Gísladóttir, sveitarstjóri

 

Mynd: Þ. N. Kjartansson 

Prenta Prenta