Fyrri mynd
Næsta mynd
Ok
Velkomin á vef Mırdalshrepps. Viğ notum vefkökur (e. cookies) til şess ağ bæta upplifun şína og greina umferğ um síğuna.
Meğ şví ağ nota vefsíğuna samşykkir şú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Opna
Facebook
Instagram
Sjórnsısl
Stjórnsısla
Mannlíf
Mannlíf
Şjónusta
Şjónusta
EN
PL
Mırdalshreppur
Open Menu Close Menu
 
Til baka
EN     PL
Şjónustuver
Opiğ frá kl. 10:00-12:00 og 13:00-15:00 alla virka daga
Sími 487 1210

Fréttir

Sveitarfélagið Suðurland – Íbúafundir

Frá 13. desember 2019 hefur verkefnahópur á vegum sveitarfélaganna Ásahrepps, Rangárþings ytra, Rangárþings eystra, Mýrdals- og Skaftárhrepps verið í könnunarviðræðum um sameiningu sveitarfélaganna fimm. Eitt af megin verkefnum hópsins er að draga saman kosti og galla sameiningar sveitarfélaganna. Vinnan hefur gengið mjög vel og þegar þetta er ritað hefur hópurinn fundað alls 13 sinnum. Að vísu hefur framgangur viðræðnanna dregist talsvert frá upphaflegum áætlunum vegna ástandsins í þjóðfélaginu á undanförnum misserum. En við Sunnlendingar erum úrræðagóð og höfum náð ágætis tökum á fjarfundum og öðrum tæknilegum lausnum sem eflaust á eftir að koma okkur til góðs, verði að sameiningu þessara sveitarfélaga í framtíðinni, þar sem að um verður að ræða landstærsta sveitarfélag Íslands.

Starfshópar, aðallega skipaðir af starfsmönnum sveitarfélaganna hafa nú skilað minnisblöðum til verkefnahópsins, þar sem hver hópur greindi núverandi stöðu málaflokka, kosti og galla og hverju sameining myndi breyta fyrir sveitarfélögin. Starfshóparnir voru um eftirfarandi málaflokka, Atvinnumál og byggðarþróun, Eignir-veitur og fjárfestingar, Fræðslu- og félagsþjónusta, Menning- frístund og lýðheilsa, Samgöngu-umhverfis- og skipulagsmál og síðast en ekki síst starfshópur um Stjórnsýslu- og fjármál. Fyrir hönd verkefnahópsins vil ég koma á framfæri kærum þökkum til allra þeirra sem lögðu sitt af mörkum í hópunum og unnu gríðarlega mikilvæga vinnu fyrir sveitarfélögin öll.  

Næsti áfangi í vinnu verkefnahópsins er að kynna niðurstöðu þeirrar miklu vinnu sem innt hefur verið af hendi fyrir íbúum sveitarfélaganna fimm og fá fram skoðanir þeirra og sjónarmið. Þetta er án efa einn af mikilvægustu þáttunum í öllu þessu ferli, þar sem að sveitarfélögin erum jú við íbúarnir, allir með tölu. Eitt af aðalmarkmiðum þessa funda er að heyra frá íbúum hvort þeir vilji að sveitarfélögin haldi áfram viðræðum sem munu þá að lokum enda með því að íbúar kjósi um sameiningu sveitarfélaganna.  Eins og áður þetta árið þurfum við að leita nýrra leiða fyrir hluti sem áður þótti okkur sjálfsagðir eins og til dæmis íbúafundir í félagsheimilum. Þar sem að það er ekki, að þekktum orsökum mögulegt í dag var ákveðið að íbúafundir yrði rafrænir í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Ég hef fulla trú á því að það muni ganga vel og gefa öllum kost á því að taka þátt og koma sínum skoðunum á framfæri. Ef einhver er í vandræðum varðandi tæknina þá má alltaf nálgast aðstoð hjá sveitarfélögunum og að sjálfsögðu frá vinum og kunningjum.

Ég allavega hlakka mikið til að sitja við tölvuna á náttbuxunum með rjúkandi kaffibolla og eiga uppbyggilegt samtal við ykkur íbúa um verkefnið Sveitarfélagið Suðurland.  Ég vona innilega að sem allra flestir íbúar sveitarfélaganna sjái sér fært að mæta og taka þátt í því að móta framtíð síns sveitarfélags.

Anton Kári Halldórsson

Oddviti Rangárþings eystra

Formaður verkefnahóps Sveitarfélagsins Suðurlands

Prenta Prenta