Fyrri mynd
Næsta mynd
Ok
Velkomin á vef Mırdalshrepps. Viğ notum vefkökur (e. cookies) til şess ağ bæta upplifun şína og greina umferğ um síğuna.
Meğ şví ağ nota vefsíğuna samşykkir şú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Opna
Facebook
Instagram
Sjórnsısl
Stjórnsısla
Mannlíf
Mannlíf
Şjónusta
Şjónusta
EN
PL
Mırdalshreppur
Open Menu Close Menu
 
Til baka
EN     PL
Şjónustuver
Opiğ frá kl. 10:00-12:00 og 13:00-15:00 alla virka daga
Sími 487 1210

Fréttir

Pistill frá sveitarstjóra

Kæru Mýrdælingar

Kæru Mýrdælingar

Veðrið leikur við okkur þessa dagana og gaman að sjá hvað allir eru að undirbúa komu sumars. Verkefnið okkar Vor í Vík fór fram úr okkar björtustu vonum með frábærri þátttöku einstaklinga og fyrirtækja. Búið að tína rusl um allar koppa grundir og sveitarfélagið allt að skrýðast sumarfötum. Eitthvað er þó farið að safnast af númerslausum bifreiðum aftur og hvet ég eigendur  þeirra til að gera viðeigandi ráðstafanir, hreinsunarátakið „Hreint Suðurland“ í samstarfi við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands er ennþá í gangi og von er á fulltrúa frá þeim í næsta mánuði.

Nú þegar við virðumst vera ná tökum á Covid faraldrinum þurfum við að huga að endurreisn. Við þurfum að hugsa stórt og beita öllum ráðum til að fá til okkar ferðaþyrsta Íslendinga í sumar. Kynna fyrir þeim allt það sem við höfum uppá að bjóða í gistingu, veitingum og afþreyingu. Síðasta útspil ríkisstjórnarinnar að taka yfir uppsagnarfrestinn mun, ef ekkert óvænt kemur uppá fleyta okkur yfir skaflinn og verða til þess að flest fyrirtæki í Mýrdalshreppi eiga möguleika á að lifi af þar til við förum að sjá ferðamenn hér aftur. Ég vek athygli á því að ætli atvinnurekendur að nýta þennan möguleika í maí þurfa þeir að bregðast við í dag. Ég trúi því staðfastlega að hingað muni streyma Íslendingar í sumar en það gerist ekki sjálfkrafa. Við þurfum að bjóða þeim til okkar á einn eða annan hátt og taka vel á móti þeim.

Sveitarstjórn tók þá ákvörðun, þrátt fyrir samdrátt í tekjum að hraða framkvæmdum og skapa störf til að mæta því ástandi sem nú er uppi. Það er fyrirséð að fara þarf í lántökur svo þetta gangi upp. En það er á svona tímum sem við teljum nauðsynlegt er að bregðast við, en draga þá frekar úr á næsta ári og greiða niður skuldir.

Á næstu dögum mun sveitarfélagið auglýsa störf í vinnuskólanum fyrir börn í 8. 9. 10. bekk  og unglinga fædda 2003. Einnig verður auglýst  eitt starf flokkstjóra í vinnuskóla, eitt starf sem verður að hluta til umsjón með leikjanámskeiði í Vík og að hluta til við innviðauppbygginu ferðamannastaða og tvö störf sem verða alfarið við innviða uppbyggingu, alls fjórar 100% stöður. Einnig hefur verið fjölgað um  tvö stöðugildi  á Áhaldahúsinu a.m.k.  fram á haust.

Einnig mun sveitarfélagið í samstarfi við SASS bjóða háskólanemum í grunn- og/eða meistaranámi í samstarf. Nemendur vinna raunhæf lokverkefni með það að markmiði að vinnan leiði til atvinnu og/eða nýsköpunar í sveitarfélaginu.  Verði umsóknin samþykkt fær viðkomandi nemandi 400.000 króna styrk til að geta einbeitt sér að verkefninu í sumar.

Framkvæmdir við Víkurbraut og Leikskála eru í fullum gangi og aðrar framkvæmdir í undirbúningi. Auk þeirra framkvæmda sem koma fram í fjárhagsáætlun er stefnt að því með samstarfi Minjastofnunar, Kötluseturs og Mýrdalshrepps að steypa grunn undir Halldórsbúð í sumar. Það er okkur mikið kappsmál að koma því húsi aftur til vegs og virðingar. Þetta hefur verið erfið fæðing en við gerum okkur vonir um að nú sé þetta verkefni komið á beinu brautina. Með þessu erum við bæði að varðveitir mikilvægan hlekk í verslunarsögu Skaftafellsýslna og skapa störf. Við stefnum að því að á næsta ári muni húsið verða flutt í heilu lagi á grunninn sé þess nokkur kostur. Það er von okkar þegar betur fer að ára í samfélaginu að fyrirtæki og einstaklingar muni leggja þessu verkefni lið svo ljúka megi endurgerð hússins sem allra fyrst.

Íþróttastarf hjá Umf. Kötlu er að fara af stað með metnaðarfullri dagskrá. Það hefur verið mjög hvetjandi að sjá hvað  forsvarsmenn og aðrir í íþróttafélaginu  okkar hafa verið skapandi við  að finna uppá leiðum til að lífga uppá tilveruna og hvetja til hreyfingar á þessum erfiðu tímum sem undanfarnir mánuðir hafa verði. Það er með svona  hugvitsemi og vinnu sem við komumst í gegnum þennan tíma.

Að lokum vil ég ítreka það að faraldurinn er ekki yfirstaðinn. Við verðum að halda áfram að huga vel að handþvotti og að halda tveggja metra regluna eins og kostur er.  Það er auðvelt að gleyma sér  þegar dregur úr umfjöllun og eðlilegur samgangur  hefst að nýju. 

Með ósk um gleðilegt sumar.

-Sveitarstjóri

 

 

Prenta Prenta