Gestir og gangandi

Mýrdalurinn hefur margt uppá að bjóða fyrir ferðamenn og er sveitin kjörin fyrir áningu í upphafi ferðalags, við lok ferðalags eða til lengri dvalar. Stutt er til flestra átta en Vík er aðeins í rúmlega tveggja klukkustunda keyrslufjarlægð frá Reykjavík. Mýrdalurinn skartar fögru, ósnortnu umhverfi og einstakri náttúrufegurð. Ef þú vilt fræðast nánar um náttúrufar og verða nokkurs vísari um ýmsa markverða staði í Mýrdal, smelltu þá á náttúruhnappinn. Ferðamenn ættu ekki að vera í nokkrum vandræðum að finna gistingu við sitt hæfi, hvort sem er á hóteli, í sumarhúsi, á gistiheimili, í heimagistingu, í bændagistingu, á tjaldstæði eða á farfuglaheimili. Hægt er að fá veitingar á flestum stöðum ásamt gistingu, hvort sem viðkomandi er næturgestur eður ei.

Ferðamenn geta einnig notið ýmiss konar afþreyingar á meðan á dvöl sinni stendur. Mikið er til af fallegum gönguleiðum í Vík og nágrenni en hægt er að nálgast kort með gönguleiðum í Upplýsingamiðstöð ferðamála í Vík. Á góðum degi er hægt að bregða sér á hestbak, hvort sem það eru stuttar eða lengri ferðir; skoða handverksframleiðslu heimamanna, renna fyrir fisk, fara í jeppaferð inná afrétt, skella sér í golf eða bruna á snjósleðum uppá jökli. Auk þess að njóta alls þess sem staðurinn hefur uppá að bjóða er einnig hægt að sækja alla almenna þjónustu á flestum sviðum.

 

Mırdalshreppur
Austurvegi 17 • 870 Vík
Sími: 4871210 • Fax: 4871205
myrdalshreppur@vik.is