Tónskólinn 
Saga Tónskóla Mýrdælinga
Tónskólinn í Vík var stofnaður haustið 1981. Stofnun skólans var samstarfsverkefni Dyrhólahrepps, Hvammshrepps og Tónlistarfélags Vestur-Skaftafellssýslu.
Haustið 1984 hóf Kristín Björnsdóttir orgelkennslu við skólann og starfaði hún við skólann til 1997 og kenndi á orgel og píanó að einu ári undanskildu.
Nemendatónleikar voru haldnir frá upphafi skólans auk þess sem skólanefnd stóð fyrir tónleikahaldi annara tónlistarmanna og vann á þann hátt í að efla tónlistaráhuga íbúanna.
Veturinn 1986 – 1987 var Haraldur Bragason skólastjóri skólans og stofnaði hann m.a. blandaðan kór sem starfaði amk. 2 ár.
Árið 1990 skipar hreppsnefnd Mýrdalshrepps í fyrsta sinn alla þrjá fulltrúa í skólanefnd, en Dyrhóla- og Hvammshreppur voru sameinaðir 1. janúar 1984, og frá 1990 er rekstur skólans alfarið í höndum Mýrdalshrepps. Fjárreiður og bókhald skólans voru þó áfram hjá skólanefnd til ársins 1994 en þá tekur skrifstofa hreppsins við öllu bókhaldi og innheimtu skólagjalda og eftir það er skólinn rekstrardeild í ársreikningi hreppsins.
Veturinn 1991-1992, á 10 ára afmæli skólans er reglugerð skólans endurskoðuð og heitir hann eftir það Tónskóli Mýrdælinga.
Starfssemi skólans var með svipuðu sniði til haustsins 1989 er Kristján Ólafsson var ráðinn í stöðu skólastjóra. Kenndi hann einkum á blásturshljóðfæri og var það nýtt í sögu skólans og enginn slík hljóðfæri til. Réðst skólinn því með skólanefndina í broddi fylkingar í kraftmiklar fjáraflanir til kaupa á hljóðfærum. Mætti skólinn allstaðar miklum velvilja hjá fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum og lögðu margir hönd á plóginn og á næstu árum eignaðist skólinn veglegt safn vandaðra hljóðfæra.
Mikill áhugi varð strax í upphafi hjá nemendum fyrir námi á blásturshljóðfæri og fljótlega var stofnuð lúðrasveit, Skólahljómsveit Mýrdalshrepps, sem starfaði frá upphafi af miklum krafti og varð áberandi í samfélaginu. Hljómsveitin starfar innan Sambands íslenskra skólalúðrasveita, S.Í.S.L., og hefur tekið þátt í landsmótumm samtakanna.
Kristján starfaði við skólann frá 1989-1996 . Auk kennslu á blásturshljóðfæri kenndi hann á harmonikku og slagverk. Meðkennari hans þessi ár var Kristín Björnsdóttir og kenndi hún á orgel og píanó.
Skólaárið 1996-1997 gengdi Kristín Björnsdóttir stöðu skólastjóra og Birna Bragadóttir skólastjóri tónlistarskólans á Kirkjubæjarklaustri kenndi á blásturshljóðfæri einn dag í viku.
Haustið 1997 var Sigurbjörg I. Kristínardóttir ráðinn skólastjóri og kenndi hún hún einkum á píanó. Sama haust réðust til skólans ungvesk hjón Krisztína Szklenár og Zoltán Szklenár. Zoltán var ráðin í stöðu blásturskennara og með tilkomu hans var Skólahljómsveit Mýrdalshrepps endurvakinn. Krisztína tók að sér söngkennslu og var það þá nýtt við skólann að hægt væri að stunda söngnám.
Tónskólastjóri er núna Brian R. Haroldsson
Sími: 4871485
Netfang: tonskoli@vik.is